Melar gistiheimili
Verkefni dagsins er "Melar gistiheimili" frábært verkefni sem Hildur Óladóttir stendur að baki. Verkefnið hefur þrisvar sinnum fengið styrk frá verkefninu “Öxarfjörður í sókn” Fyrir eftirfarandi verkþætti:
1. Undirbúningur og hönnun
2. Þakframkvæmdir
3. Bakkaböðin
Markmið verkefnisins í heild er fyrst og fremst uppbygging á svæðinu. Endur- byggja og gera upp Mela, sem er gamalt hús á Kópaskeri frá 1930 og koma því í þannig horf að hægt sé að nýta það sem íbúð og gistingu fyrir ferðamenn. Melar er elsta núverandi íbúðarhús á Kópaskeri og því mjög mikilvægt fyrir staðinn að það sé gert vel upp.
Markmið var að koma húsinu í fokhelt ástand fyrir haustið 2017 og því mikilvægt að nýtt þak kæmist á sem fyrst, ekki hafði verið skipt um þak frá því húsið var byggt. Áður en þær framkvæmdir hófust hafði farið mikill tími í bæði hönnun og undirbúning. Í lok ársins 2018 hafa allar lagnir við húsið verið endurbættar, heitt og kalt vatn, frárennslis- og rafmagnslagnir. Búið er að rífa allt úr húsinu þannig að aðeins steinveggir standa eftir. Nýir gluggar og útihurðir eru komnar á neðstu hæð og verið er að vinna við að setja glugga á hinar hæðirnar. Uppbygging á neðstu hæðinni, stúdeoíbúð, er langt komin og verður hægt að búa þar vor 2019.
Með Bakkaböðunum er markmið verkefnisins að útbúa sérstöðu á Kópaskeri með því að setja upp heita potta í bakkanum niður við fjöru og nýta þannig þá vatnsorku sem er á svæðinu. Áhersla er lögð á upplifunarferðamennsku fyrir ferðafólk. Frá pottunum liggur stígur niður í sandfjöru sem er ein af perlum staðarins. Þar er aðgrunnt og skjól við bryggju og varnargarð á staðnum og upplagt til sjósunds. Markmiðið er að skapa afþreyingu í þorpinu sem ekki er til staðar fyrir bæði heimamenn og ferðafólk. Bakkaböðin verða því skemmtileg afþreying fyrir Kópaskersbúa og nágrenni.
Sumarið 2018 voru settir upp tveir pottar á gömlu Bakkalóðinni, allar lagnir lagðar að þeim og þeir tengdir. Búið er að ganga frá í kringum þá með fallegum steinum og fjörugrjóti. Baðhús við pottana verður reist í vor 2019 og stefn er að því að opna aðstöðuna sumarið 2019.
Stefnt er að því að klára sjálft húsið fyrir vor 2020 þannig að hægt verði að leigja nokkur herbergi á efstu hæð með góða aðstöðu á miðhæðinni.