Fara í efni

Íbúafundur í Lundi

Nú er byggðaþróunarverkefnið Öxarfjörður í sókn hálfnað í tíma, þá er gott að staldra við og fara yfir stöðuna. Verkefnið hófst með íbúafundi og línurnar lagðar af íbúum, þær voru yfirfarnar á íbúafundi í janúar 2017 og nú er rétt að taka stöðuna aftur.

Verkefnið hófst með tveggja daga íbúaþingi undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur og í framhaldinu vann verkefnisstjórn stöðugreiningu á svæðinu þar sem tekið var tillit til íbúaþróunar, atvinnuþátta og þróunar og sérstöðu landshlutans. Niðurstöður íbúaþings, fyrrnefnd stöðugreining og aðrar skýrslur sem lágu fyrir um svæðið voru notaðar til að móta framtíðarsýn og markmið og voru þau lögð fyrir íbúafund sem haldinn var vorið 2016.

Framtíðarsýn íbúa héraðsins er orðuð svona:

„Öxarfjarðarhérað er þekkt fyrir hágæða matvælaframleiðslu er byggir meðal annars á hugvitsamlegri og ábyrgri nýtingu á auðlindum héraðsins. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein í héraði stórbrotinnar, fjölbreyttrar en viðkvæmrar náttúru. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa tekið höndum saman og skipulagt uppbyggingu með þarfir umhverfis og samfélags í huga, ekki síður en efnahagslegar þarfir. Uppbyggilegt og samheldið samfélag þar sem framfarir í atvinnulífi, ásamt öflugum innviðum, hafa leitt til jákvæðrar íbúaþróunar á verkefnistímanum.“

Verkefnið Brothættar byggðir er sértækt verkfæri Byggðastofnunar til að aðstoða byggðarlög sem standa höllum fæti. Meginmarkmiðið er að stöðva viðvarandi fólksfækkun og er ætlað viðkomandi byggðarlögum til að nýta sóknarfæri, einkum þau sem byggja á sérstöðu þeirra. Öxarfjörður í sókn er þátttakandi í brothættum byggðum. Þátttakendur í þessu verkefni eru ríki, sveitarfélag, stoðkerfi og íbúar, hér er vettvangur þar sem leiddir eru saman kraftar.

Íbúafundurinn verður haldinn í Lundi mánudaginn 29. janúar og hefst kl. 17:30, boðið verður upp á léttan kvöldmat og áætluð fundarlok er kl. 21:00. Íbúar eru hvattir til að fjölmenna og taka þátt.

BS