Fara í efni

Íbúar Öxarfjarðarhéraðs endurnýja framtíðarsýnina

Í lok janúar var haldinn íbúafundur í Lundi þar sem íbúar fóru yfir framtíðarsýn og markmið með verkefninu Öxarfjörður í sókn. Framtíðarsýnin sem sett var í upphafi verkefnisins stendur óbreytt sem og meginmarkmiðin en nokkur starfsmarkmið voru aðlöguð eða uppfærð og örlítið bættist við.

Meginmarkmiðin eru eftirfarandi:

  1. Framandi áfangastaður
  2. Framsækni í matvælaframleiðslu
  3. Uppbyggilegt samfélag
  4. Öflugir innviðir.

Hvað varðar framandi áfangastað er þar efst á blaði sá vilji íbúa að Dettifossvegur verði kláraður, í það minnsta kominn á samgönguáætlun áður en verkefnið Öxarfjörður í sókn er á enda runnið. Íbúar vilja gjarnan að á svæðinu verði byggt fjögurra stjörnu hótel enda er það nauðsynlegur kostur í gistiflóru hvers svæðis. Í Öxarfjarðarhéraði er mikil matvælaframleiðsla og vilji er fyrir því að matvælum úr héraði sé gerð góð skil á veitingastöðum norðan heiða. Skjálftasetrinu þarf að koma fyrir vind og tryggja því góðan rekstrargrundvöll. Bæta þarf við afþreyingarmöguleikum á svæðinu, til dæmis með bættu skipulagi á leiðsögn og aðstöðu fyrir fuglaskoðun, markmiðið er að tveim góðum áfangastöðum verði bætt á svæðið fyrir árslok 2018. Í vinnslu er hönnun á baðstað sem nýtir jarðhita sem gæti orðið mikilvægur þáttur í ferðamennsku á svæðinu og mikil lyftistöng.

Íbúum er annt um matvælaframleiðslu á svæðinu og hvetja til þróunar á vörum úr hliðarafurðum sauðfjárslátrunar. Nýju markmiði um aukningu skógræktar sem gæti treyst grundvöll landbúnaðar var bætt við á fundinum, sem og nýju markmiði um hagnýtingu jarðhitans til grænmetisræktunar.

Fátt er mikilvægara í sambýli manna en að samskiptin og umhverfið sé „uppbyggilegt“. Í því felst til dæmis að lífi sé blásið í Framfarafélag Öxarfjarðar, að verkefnum heimafólks, eins og til dæmis verslunarrekstri og vinnuvéla og/eða verktaka  sé sýnd virðing og tryggð. Að sveitarstjórn og nefndir bæjarins séu meðvitaðir um hvað skipti máli í litlu samfélagi og að farvegur upplýsinga milli íbúa sé greiður, þar má nefnda facebook síðuna „Gaman saman“ og oxarfjordur.is sem nú er hýst á heimasíðu Norðurþings. Íbúar svæðisins vilja að hlúð sé að nýbúum. Íbúar vilja hvetja sveitarstjórn til að dreifa starfsemi sinni eftir föngum, að fjölga störfum sem sinna má fjarri miðjunni á Húsavík.

Hvað varðar öfluga innviði er rekstur leikskóladeildar bæði í Lundi og á Kópaskeri, íbúum mikið hjartans mál. Íbúar hafa líka áhyggjur af rafmagnsöryggi og þeir krefjast háhraðanetsambands. Huga þarf að húsnæðismálum því talsverður skortur er á húsnæði og stendur það framþróun fyrirtækja fyrir þrifum. Íbúar vilja fá lagfæringar á sorpflokkun og standa vörð um þjónustu eins og póst- og bankaþjónustu. Útsendingar útvarps eru víða með herkjum og þó ástandið hafi lagast á liðnum misserum er staðan ekki ásættanleg. Ítrekuð er krafa um hitaveitu í Kelduhverfi og að umræða um sundlaug sé tekin upp að nýju. Auka þarf opnun sundlaugar í Lundi og tryggja rekstur og viðhald hennar.

Hér má nálgast uppfærða stefnuskrá Öxarfjarðar í sókn, með breytingum sem óskað var eftir á íbúafundinum þann 29. janúar 2018.

Framtíðarsýn Öxarfjarðar í sókn á þessa leið:

Öxarfjarðarhérað er þekkt fyrir hágæða matvælaframleiðslu er byggir meðal annars á hugvitsamlegri og ábyrgri nýtingu á auðlindum héraðsins. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein í héraði stórbrotinnar, fjölbreyttrar en viðkvæmrar náttúru. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa tekið höndum saman og skipulagt uppbyggingu með þarfir umhverfis og samfélags í huga, ekki síður en efnahagslegar þarfir. Uppbyggilegt og samheldið samfélag þar sem framfarir í atvinnulífi, ásamt öflugum innviðum, hafa leitt til jákvæðrar íbúaþróunar á verkefnistímanum.

 

 Bryndís Sigurðardóttir