Jarðskjálftahrina á Grímseyjarbeltinu í febrúar
Mikil jarðskjálftavirkni mældist á svokölluðu Grímseyjarbelti í febrúarmánuði. Grímseyjarbeltið liggur frá Öxarfirði til norðvesturs að Kolbeinseyjarhrygg. Mikil jarðskjálftavirkni er alla jafna á Grímseyjarbeltinu en það er hluti af Tjörnesbrotabeltinu sem samanstendur einnig af Húsavíkur-Flateyjar misgenginu og Dalvíkur misgenginu. Tjörnesbrotabeltið markar frekar flókna hliðrun á flekaskilunum milli Norðurgosbeltisins og Kolbeinseyjarhryggs. Rannsóknir benda til að mestar færslur vegna flekahreyfinga á Tjörnesbrotabeltinu séu um Grímseyjarbeltið. Nokkur eldstöðvakerfi eru þekkt á því og hafa þau öll norðlæga stefnu. Nafir er eitt þeirra og liggur neðansjávar, um 10 km norðaustur af Grímsey. þar mældist kröftug skjálftahrina sem hófst 8. febrúar. Milli 8. og 9. febrúar mældust um 150 skjálftar. Þann 13. febrúar herti hrinan aftur á sér og stóð öflug virkni yfir til loka febrúar þó enn mælist skjálftar á svæðinu. Stærsti skjálftinn mældist um 14 km austnorðaustur af Grímsey þann 19. febrúar kl. 5:21 og reyndist 5,2 að stærð. Skjálftinn fannst víða á Norðurlandi. Annar skjálfti af stærð 4,9 mældist á svipuðum slóðum kl. 5:34. Samtals mældust um 60 skjálftar stærri en 3 í hrinunni, þar af voru þrír skjálftar um 4 að stærð. Má gera ráð fyrir að allir þessir skjálftar hafi fundist vel í Grímsey og þeir stærstu nyrst á Norðurlandi. Búið er að yfirfara um 2500 skjálfta í hrinunni en enn er eftir að yfirfara nokkur hundruð skjálfta.
Þann 22. febrúar fór að bera einnig á aukinni virkni sunnarlega í Grímseyjarbeltinu, þ.e. í Öxarfirði um 15 km suðsuðvestur af Kópaskeri. Þann dag mældist skjálfti af stærð 3,6 sem fannst vel á Kópaskeri og nærliggjandi sveitum. Samtals hafa mælst um 140 minni skjálftar á þessu svæði frá 22. febrúar fram í byrjun mars.
Veðurstofa Íslands mælir jarðskjálfta á Íslandi og hefur eftirlit með náttúruvá. Náttúruváreftirlit Veðurstofunnar er margþætt og sinnt allan sólarhringinn.
Kristín Jónsdóttir
Fagstjóri jarðvár og hópstjóri í náttúruváreftirliti
Hér má nálgast fyrirlestur Kristínar á fundi sem Almannavarnir héldu á Kópaskeri í febrúar.