Kynnisferð á Norðurhjarann í tengslum við Vestnorden
Kynnisferð á Norðurhjarann í tengslum við Vestnorden
Undirbúningur fyrir verkefnið hófst á útmánuðum þegar ferðalýsing um Norðurhjarasvæðið var útbúin og send inn til kynningar. Þar var ferðin kynnt á heimasíðu ferðakaupstefnunnar Vestnorden og ferðaskrifstofur gátu skráð sig. Vegna stuðnings frá Öís var hægt að hafa ferðina endurgjaldslausa, sem var mikill kostur. Framboð af ferðum var mikið þessa sömu daga, bæði sunnanlands og norðan, austan og vestan og samkeppni um þátttakendur mikil.
En þarna fékk svæðið auglýsingu og ferðin var kynnt fyrir öllum væntanlegum þátttakendum kaupstefnunnar, um 550 fulltrúum erlendra ferðaskrifstofa.
Síðla sumars kom í ljós að ellefu manns frá jafn mörgum erlendum ferðaskrifstofum skráðu sig í kynnisferðina um norðurhjarann.
Sunnudaginn 30. september í björtu og fallegu veðri var tekið á móti hópnum á Húsavíkurflugvelli og haldið rakleiðis austur fyrir Tjörnes. Í Skúlagarði var áð og þar fengu ferðaþjónar tækifæri til að kynna fyrirtæki sín. Þaðan var haldið í Gljúfrastofu þar sem þjóðgarðsvörður kynnti þjóðgarðinn. Einnig þar fengu fyrirtæki möguleika á að kynna sig og starfsemi sína. Á leiðinni var upplýsingum um svæðið og ýmsa gisti- og ferðamöguleika komið á framfæri. Þaðan var haldið á Kópasker og áð í Skjálftasetrinu ásamt því að líta inn til gistiaðila í logni og fallegri birtu í rökkurbyrjun. Til Raufarhafnar var síðan haldið í mat og gistingu.
Morguninn eftir var Heimskautsgerðið kynnt og skoðað, en það er helsta aðdráttaraflið sem dregur fólk austur fyrir Tjörnes og Jökulsá. Þaðan var haldið í Forystufjársetrið þar sem fleiri fyrirtæki kynntu sig. Hádegisverður var snæddur á Bárunni á Þórshöfn þar sem enn ein vinnustofan var haldin og fleira skoðað. Þá var haldið að Ytra Lóni á Langanesi í kaffi og kynningu. Þaðan var haldið til baka til Akureyrar, á leiðinni komið við í Gistiheimilinu Dettifossi í Öxarfirði. Ferðinni lauk með því að þátttakendur voru keyrðir á gististaði sína á Akureyri.
Eftir ferðakaupstefnuna Vestnorden var þessum aðilum (ásamt öllum öðrum sem fundað var með) sendur upplýsingapóstur um svæðið. Í framhaldinu hafa nokkrir í hópnum beðið um frekari upplýsingar, myndir og verðtilboð, einnig sett sig í beint samband við fyrirtæki á svæðinu. Þetta tengist beinu flugi til Akureyrar, frá Bretlandi og Hollandi. Sem dæmi má nefna að fulltrúi frá Voigt Travel í Hollandi skráði sig í ferðina beinlínis vegna fyrirhugaðs flugs þeirra til Akureyrar og áhuga á svæðinu.
Þessum samskiptum verður haldið áfram.