Með aðsetur í stjórnsýsluhúsinu
Nýráðinn verkefnastjóri Öxafjarðar í sókn, Bryndís Sigurðardóttir hefur nú komið sér fyrir á annari hæð í stjórnsýsluhúsinu á Kópaskeri. Það eru tvö ár eftir af verkefninu og um að gera að nýta tímann sem best. Fyrirhugaður er íbúafundur í lok janúar eða byrjun febrúar þar sem farið verður yfir stöðu þeirra verkefna sem ákveðið var að ganga í við upphaf verkefnisins og hvernig við höldum áfram að vinna að þeirri framtíðarsýn sem lagt var upp með:
„Öxarfjarðarhérað er þekkt fyrir hágæða matvælaframleiðslu er byggir meðal annars á hugvitssamlegri og ábyrgri nýtingu á auðlindum héraðsins. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein í héraði stórbrotinnar, fjölbreyttrar en viðkvæmrar náttúru. Hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu hafa tekið höndum saman og skipulagt uppbyggingu með þarfir umhverfis og samfélags í huga, ekki síður en efnahagslegar þarfir. Uppbyggilegt og samheldið samfélag þar sem framfarir í atvinnulífi, ásamt öflugum innviðum, hafa leitt til jákvæðrar íbúaþróunar á verkefnistímanum“.
Það er rétt að rifja upp meginmarkmið verkefnisins, nú þegar það er hálfnað í tíma:
- Framandi áfangastaður
- Framsækni í matvælaframleiðslu
- Uppbyggilegt samfélag
- Öflugir innviðir.
Áhugasamir og ábyrgir íbúar héraðsins eru hvattir til að leita til verkefnastjóra og nýta starfskrafta hennar til hins ýtrasta. Tölvupóstfang er bryndis@atthing.is og sími 896 9838.