Metfjöldi umsókna
Fjórðu úthlutun á vegum verkefnisins Öxarfjörður í sókn er nú lokið en alls bárust tólf umsóknir. Til ráðstöfunar voru sjö milljónir en níu verkefni af tólf fengu styrk. Úthlutunarreglur eru í samræmi við verkefnislýsingu og skilaboð íbúaþings og voru umsóknir metnar á eftirfarandi flokkum á skalanum 1-5 og hæsta mögulega einkunn er 100.
- · Fellur vel að skilaboðum íbúaþings og stefnumótun verkefnisins
- · Útkoma nýtist sem flestum
- · Trufli ekki samkeppni
- · Leiði til atvinnusköpunar, helst á heilsársgrundvelli
- · Sé líklegt til árangurs og þekking/reynsla sé til staðar
- · Að markaðslegar og/eða rekstrarlegar forsendur séu trúverðugar
- · Áhrifa gæti fyrst og fremst í heimabyggð
- · Hvetji til samstarfs og samstöðu
- · Styrkveiting hafi mikil áhrif á framgang verkefnis
Verkefnin voru afar fjölbreytt og hlutu eftirfarandi styrk:
Sólstöðuhátíð, Inga Sigurðardóttir
Nefnd um Sólstöðuhátíð sækir um styrk til að halda fyrirtækjadag í tengslum við hátíðina og féllst nefndin á að styrkja það.
Norðurhjari – kynnisferð, Halldóra Gunnarsdóttir
Norðurhjari áformar að bjóða fulltrúum erlendra ferðaskrifstofa sem mæta á kaupstefnuna Vestnorden í haust á Akureyri, að koma í tveggja daga kynnisferð í Öxarfjörð. Þátttakendum yrði kynnt svæðið með heimsóknum til ferðaaðila við Öxarfjörð og austar, t.d. í þjóðgarðinn og fleira. Öll fyrirtæki í ferðaþjónustu í Öxarfjarðarhéraði fengju tækifæri til að taka á móti hópnum og kynna sig.
Norðurhjari – áfangastaðaþing, Halldóra Gunnarsdóttir
Áfangastaðaáætlun Norðurhjara sem gerð var árið 2013 var endurskoðuð og uppfærð á síðasta ári. Ýmislegt hafði breyst á þeim rúmlega fjórum árum sem liðin voru. Áætlunin hefur verið notuð inn í ýmsa skipulagsvinnu undanfarin ár s.s. landsáætlun, DMP, ACW (Norðurstrandarleið) , stefnuvinnu Eyþings og fleira. Því er mikilvægt að kynna áætlunina að nýju á sem víðustum grundvelli, svo allir gangi í takt. Hugmyndin er að halda áfangastaðaþing á Kópaskeri í apríl. Á þessu málþingi verður áætlunin kynnt, með áherslu á Öxarfjörð og farið yfir hvern stað með myndefni eins og kostur er. Rúmlega helmingur áfangastaðanna í skýrslunni eru við Öxarfjörð og á Melrakkasléttu, eða alls 17 staðir. Þingið verður öllum opið, þannig nýtist útkoman sem flestum.
Melar – Bakkaböð, Hildur Óladóttir og Jón Kristján Ólason
Markmið verkefnisins er að útbúa sérstöðu á Kópaskeri með því að setja upp heita potta í bakkanum niður við fjöruna og nýta þannig þá vatnsorku sem er á svæðinu. Áhersla er lögð á upplifunarferðamennsku fyrir ferðafólk. Frá pottunum liggur stígur niður í sandfjöru sem er perla staðarins full af skeljum. Þar er aðgrunnt og skjól við bryggju og varnargarð á staðnum og upplagt til sjósunds. Markmiðið er að skapa afþreyingu í þorpinu sem ekki er til staðar fyrir bæði heimamenn og ferðafólk. Á Kópaskeri er engin sundlaug, næstu sundlaugar eru innilaugar á Raufarhöfn og Þórshöfn. Sundlaug í Lundi í Öxarfirði er aðeins opin stuttan tíma á dag í þrjá mánuði á ári fyrir almenning. Bakkaböðin verða því skemmtileg afþreying fyrir Kópaskersbúa og nágrenni.
Kantarella, Guðmundur Örn Benediktsson
Markmiðið er að leita uppi og skrá fundarstaði sveppsins kantarellu, Cantharellus cibarius, í Núpasveit. GPS tæki verður notað við skráninguna. Vonast er til að finna sveppinn á 250 stöðum í sveitinni. Sveppir eru vannýtt auðlind og og full ástæða til að gefa þeim gaum. Þessari rannsókn er ætlað að skila upplýsingum sem geta orðið undirstaða nýtingar.
Hótel Sandfell, Anna Englund
Megin tilgangurinn er að byggja upp framúrskarandi ferðaþjónustufyrirtæki með gistingu, veitingasölu og afþreyingu í hjarta Öxarfjarðar. Til stendur að byggja hótel í landi Klifshaga með útsýn yfir Öxarfjörð.
Fuglamerki, Guðmundur Örn Benediktsson
Verkefnið er þríþætt rannsóknarverkefni á fuglalífi í héraðinu. Leit að merktum fuglum við Öxarfjörð og á Sléttu, aflestur af merkjunum með hjálp fjarsjár og ljósmyndunar, talning á sanderlu á völdum stöðum í Núpasveit og á Sléttu að vori og aftur frá miðju sumri og loks vöktun á litmerktum tjöldum, komutíma þeirra, tímasetningu varps og eggjastærð og varpárangri.
Hestasumarbúðir, Karin Charlotta Victoria Englund (Active North ehf)
Afrakstur og markmið verkefnisins í grófum dráttum er að hanna, þróa og markaðssetja lengri hestatengdar ferðir á Norðurhjarasvæðinu sem fela í sér eftirfarandi: yfirgripsmikið reiðnámskeið, dagshestaferðir um svæðið ásamt skipulögðum ferðum að helstu náttúruperlum svæðisins með leiðsögumanni. Í hönnunarferlinu verður það haft að leiðarljósi að hægt sé að bjóða upp á þessa þjónustu allan ársins hring. Með þessum ferðum verður hægt að lengja dvöl ferðamanna á vegum Active North á svæðinu allan ársins hring. Einnig koma ferðirnar til með að vera hannaðar í samstarfi við aðra þjónustuaðila á svæðinu svo tryggt sé að ferðamennirnir nýti sér ekki aðeins þjónustu Active North heldur fleiri aðila, þjónusta sem snýr að t.d gistingu, matsölu, eiganda reiðhallarinnar á Feykishóli og kennslu (með milligöngu AN).
Fæðubótarefni, Katrín S. Gunnarsdóttir
Markmiðið er að hefja framleiðslu á bætiefnum úr íslenskum jurtum og afurðum sauðfjár. Fyrsta skrefið er að safna tilteknum villtum jurtum í heiðalöndum og merkja helstu vaxtasvæði þeirra En tilgangur söfnunar er að nýta jurtirnar til framleiðslu á bætiefnum. Næsta skref yrði síðan að bæta ræktunarskilyrði fyrir þessar tilteknu jurtir á vissum svæðum svo stýra megi ræktun og ná hámarks afköstum.
Verkefnisstjórn óskar styrkhöfum til hamingju með spennandi verkefni og hlakkar til að fylgjast með framgangi þeirra.
BS