Öxarfjörður í sókn- íbúafundur
Þann 29. janúar s. l. var haldinn íbúafundur í Lundi, Öxarfirði en þar mættu alls tæplega 50 manns og tóku þátt í þeirri vinnu sem þar fór fram. Ánægjulegt var að sjá að þarna komu íbúar af svæðinu öllu.
Á dagskrá voru tvær kynningar, annars vegar frá Framfarafélag Öxarfjarðar og hins vegar frá Brynjari Þór og Guðrúnu Lilju sem eru að vinna að því að koma á fót ullarvinnslu í Gilhaga. Verkefnisstjóri ÖÍS fór með stutta samantekt af árinu 2018 ásamt yfirferð á stöðu starfsmarkmiða. Kvenfélag Öxfirðinga sá til þess að fundarfólk færi hresst og endurnært inn í seinni hluta fundarins með dásemdar súpu og brauði.
Eftir kvöldmat hófst hópavinna sem gekk út á endurskoðun og uppfærslu starfsmarkmiða ÖÍS. Alls voru fjórir vinnuhópar (byggt á megin markmiðum verkefnisins):
- Framandi áfangastaður
- Framsækni í matvælaframleiðslu
- Uppbyggilegt samfélag
- Öflugir innviðir.
Miklar og góðar umræður áttu sér stað, einnig fjölgaði starfsmarkmiðum töluvert- nú eru spennandi tímar fram undan hjá verkefnisstjóra. Á næstu dögum verður uppfærð stefnuskrá(framtíðarsýn og markmið) birt til kynningar.
Charlotta Englund