Utankjörfundaratkvæðagreiðsla á Kópaskeri og Raufarhöfn
Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að bjóða upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Kópaskeri og Raufarhöfn miðvikudaginn 24. maí á eftirfarandi tímum:
Kl. 10:00 – 11:00 á Kópaskeri – á skrifstofu Norðurþings Bakkagötu 10
Kl. 12:00 -13:00 Raufarhöfn – í ráðhúsinu.
Talsverð umræða hefur verið á ljósvaka- og samfélagsmiðlum um það óréttlæti sem felst í misjöfnu aðgengi íbúa til að kjósa utan kjörfundar. Hróplegust er þó staðan í Langanesbyggð en þar þurfa íbúar að aka allt að 400 km til að geta kosið og það á venjulegum vinnutíma og kostar það því bæði heilan vinnudag og akstur að fá að taka þátt í lýðræðinu. Sveitarstjórn Langanesbyggðar bókaði á fundi sínum þann 17. maí mótmæli vegna þessarar mismununar.
Á föstudaginn sendi Kristján Þórhallur Halldórsson íbúi á Kópaskeri eftirfarandi bréf til Sýslumanns Norðurlands eystra, sveitarstjóra Norðurþings, Sambands Íslenskra sveitarfélaga, starfsmanns Norðurþings á Kópaskeri og til verkefnisstjóra Öxarfjarðar í sókn, það er hér birt með leyfi Kristjáns:
Til þeirra er málið varðar!
Tilefni til þessara skrifa er það sem undirrituðum finnst vera með öllu ófullnægjandi þjónusta í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í smærri byggðakjörnum landsins í víðfeðmum sveitarfélögum. Í þessu tilviki á Kópaskeri, en væntanlega á það sama við um fleiri byggðarlög.
Nú hefur orðið sú breyting á að ekki er lengur boðið upp á atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í skrifstofuútibúi sveitarfélagsins. Það er mjög einfalt mál að fyrir þá sem eru búsettir á staðnum og sjá ekki fram á að vera heima á kjördag þýðir þetta hálfs dags frí og 200 km akstur til að nýta atkvæðisréttinn. Opnunartími sýsluskrifstofu er á vinnutíma undirritaðs og viðbótaropnun á laugardegi kallar eftir sem áður á aksturinn, auk þess sem stefnir í dvöl í öðrum landshluta þann dag.
Í frétt í útvarpi voru höfð uppi þau rök að ekki væri hægt að treysta starfsmönnum skrifstofu sveitarfélaga til að annast þessa þjónustu vegna pólitískrar þátttöku þeirra (á þó alls ekki við um Kópasker). Þetta eru afar hæpin rök og lýsa í senn vantrausti á þetta ágæta starfsfólk sveitarfélaga og ekki síður á kjósandann sem skv. þessu er ófær um að taka þátt eða heyra pólitíska umræðu sem kynni að berast honum til eyrna. Rétt er að taka fram að í engu tilviki fyrr né síðar hefur undirritaður orðið var við áróður þar sem utankjörfundarþjónustu er sinnt.
Ekki er að efa að þið öll sem hafið komið að því að móta þessa umgjörð eruð öll af vilja gerð og meinið vel, en þarna hefur að mati undirritaðs tekist afar illa til og það á kostnað grundvallarréttinda íbúa í dreifðum byggðum landsins í sameinuðum sveitarfélögum. Undirritaður er ekki virkur á samfélagsmiðlum og leggur það ekki í vana sinn að þrasa út af stjórnvaldsákvörðunum en að þessu sinni er það ekki umflúið.
Ég sendi póstinn einnig til upplýsingar til verkefnisstjóra okkar í verkefninu Öxarfjörður í sókn sem er hluti af verkefni Brothættra byggða á vegum Byggðastofnunar og samstarfsaðila, m.a. sveitarfélagsins. Þessi ákvörðun um skerðingu á þjónustu í kosningum er enn eitt dæmið um hvernig markvisst er gengið á rétt íbúa dreifðra byggða til grunnþjónustu og sýnir jafnframt tillitsleysi við samfélög sem þó eru á sama tíma að reyna að snúa vörn í sókn með samstilltu átaki íbúa og stoðkerfis. Þarna þurfa greinilega fleiri að hugsa sinn gang og leggjast á árar með okkur.
Með vinsemd og virðingu,
Kristján Þ. Halldórsson
Kópaskeri
Þann sama dag var eftirfarandi bókun gerð hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga:
„Gera verður þá kröfu til dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta að þau tryggi að skipulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu henti íbúum í hverjum landshluta, án þess að þeir þurfi að ferðast um langan veg. Jafnframt þarf að tryggja að sjómenn eigi kost á því að greiða atkvæði utan kjörfundar. Óásættanlegt er að skortur á þjónustu af hálfu sýslumanna verði til þess að draga úr kjörsókn.
Stjórn sambandsins telur mikilvægt að hafnar verði sem fyrst viðræður á milli sambandsins, dómsmálaráðuneytisins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands um nauðsynlegar úrbætur á kosningalöggjöf og framkvæmd kosninga. Í þeim viðræðum verði sérstaklega horft til þess á hvern hátt sé hægt að auka kosningaþátttöku.“
Sýslumaður Norðurlands eystra hefur nú brugðist við þessum aðfinnslum með opnun í einn klukkutíma á Kópaskeri og einn klukkutíma á Raufarhöfn.
BS