Ýmislegt á döfinni hjá Norðurhjara
„Nú æjum við fyrst ögn”, áfangastaðaþing Norðurhjara verður haldið í Öxi á Kópaskeri föstudaginn 13. apríl kl. 13:00. Aðalefni fundarins verður kynning á endurskoðaðri áfangastaðaáætlun Norðurhjara, sem var fyrst gerð 2012 og 2013 en uppfærð í lok síðasta árs. Auk þess verða fleiri fyrirlestrar og innlegg, m.a. frá Minjastofnun Íslands. Verkefnið Öxarfjörður í sókn styrkir verkefnið. Dagskrá verður send út fljótlega, skráning á nordurhjari@simnet.is.
Vorferð Norðurhjara verður á Raufarhöfn laugardaginn 21. apríl en kynnisferðir Norðurhjara voru mjög vinsælar á árunum 2015 - 2016. Nú hefur Norðurhjari ákveðið að byrja aftur á Raufarhöfn, enda margt skemmtilegt gerst þar á síðustu misserum. Nánar kynnt þegar nær dregur, skráning á netfangið nordurhjari@simnet.is.
Framundan hjá Norðurhjara er að endurskoða þjónustubók Norðurhjara og henni verður dreift í vor. Vestnorden kaupstefnan verður á Akureyri í byrjun október og er undirbúningur fyrir kynnisferð um svæði Norðurhjara í tengslum við viðburðinn þegar hafinn.
Aðalfundur Norðurhjara, ferðaþjónustusamtaka 2017 var haldinn í byrjun desember sl. á Þórshöfn. Fundurinn var vel sóttur og urðu góðar umræður. Gestur fundarins var Þórný Barðadóttir sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála sem flutti fyrirlestur um Skemmtiferðaskip við Norðurland þar sem hún kynnti rannsókn á móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip með áherslu á okkar svæði. Einnig var fjallað um Norðurstrandarleiðina (ACW) og lokið við "tilnefningar" áfangastaða leiðarinnar.
Í stjórn voru kosin þau Gunnar Jóhannesson sem tók að sér formennsku, Kristbjörg Sigurðardóttir gjaldkeri, Daníel Hansen ritari, Nik Peros og Hildur Stefánsdóttir meðstjórnendur. Til vara þau Charotta Englund og Einar Sigurðsson.
Mannamót 2018 var haldið í flugskýli Ernis á Reykjavíkurflugvelli um miðjan janúar en Mannamót er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni til að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu. Norðurhjari ásamt tveimur fyrirtækjum innan samtakanna tóku þátt og kynntu sig og svæðið í heild. Aðsókn var betri en nokkru sinni fyrr og líf og fjör í flugskýlinu.
Mid-Atlantic ferðakaupstefnan sem IcelandAir stendur fyrir, var haldin í Reykjavík í lok janúar og Norðurhjari komst inn, en þangað komast færri en vilja. Aðilar innan Norðurhjara lögðu saman í púkk svo þetta væri hægt. Bás Norðurhjara mönnuðu Halldóra verkefnastjóri og Hildur Stefánsdóttir stjórnarmaður en fyrir kaupstefnuna var búið að bóka fundi með fjölda erlendra ferðaskrifstofa, auk þess sem ýmsir fundir bættust við þegar á hólminn var komið. Athyglisvert var að hitta nokkrar erlendar ferðaskrifstofur sem eru nýlega byrjaðar að skipuleggja og kynna ferðir inn á svæðið.
HG/BS