Það var við fyrstu úthlutun styrkja á vegum Öxarfjarðar í sókn, haustið 2016, sem áhugahópur um spunaverksmiðju við Öxarfjörð fékk rausnarlegan styrk til að þróa hugmyndina. Í fyrstu var hugmyndin að byggja stóra verksmiðju sem gæti framleitt mýkra band en hingað til hefur verið á markaðnum, úr íslenskri ull með íblöndu af Mongólskri ull. Hópurinn á þessum tíma samanstóð af þáverandi formanni Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga Einari Ófeigi Björnssyni, Birni Víkingi Björnssyni framkvæmdarstjóra Fjallalambs, Sigurlínu J. Jóhannesdóttur fyrrum ullarmatskonu og bónda að Snartarstöðum 2 í Núpasveit, Kristjáni Þ. Halldórssyni starfsmanni Byggðastofnunar og íbúa á Kópaskeri, Páli Kr. Pálssyni lektor við HR og Silju Jóhannesdóttur þáverandi verkefnisstjóra Öxarfjarðar í sókn. Undirrituð, nýr verkefnisstjóri Öxarfjarðar í sókn hefur nú tekið við hlutverki Silju í hópnum og Páll Kr. Pálsson er ekki lengur hluti af verkefninu, að öðru leyti er hópurinn óbreyttur.