ROF Raufarhöfn og framtíðin
Árið 2012 hófst tilraunaverkefni á Raufarhöfn að frumkvæði íbúa, með það í huga að leita lausna á bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undangenginna ára. Verkefnið var frá upphafi í samstarfi við heimamenn, Byggðastofnun, Norðurþing, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Verkefnið hlaut heitið „Brothættar byggðir“. Fjárveiting fékkst til verkefnisins árið eftir og var þá byggðarlögum fjölgað í fjögur og náði verkefnið þar með til Bíldudals, Breiðdalshrepps og Skaftárhrepps, auk Raufarhafnar. Með aukinni fjárveitingu og nýju skipulagi verkefnisins var ákveðið að bæta við þremur byggðarlögum árið 2015, en það eru: Öxarfjarðarhérað (Kópasker og nærsveitir), Hrísey og Grímsey. Árið 2017 bættist Árneshreppur í hópinn og Borgarfjörður eystri og Þingeyri árið 2018. Verkefnið nær því til átta byggðarlaga eins og er, en verkefninu á Bíldudal og Raufarhöfn er lokið.
Markmiðið með verkefninu Brothættum byggðum er m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Hugmyndin var frá upphafi sú að með verkefninu á Raufarhöfn yrði til aðferð eða verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu frammi fyrir svipuðum vanda.
Á íbúafundi í janúar 2019 voru markmiðin yfirfarin og endurskoðuð. Unnið verður áfram með eftirfarandi markmið:
Sérstæður áfangastaður
- Að 90% íbúðahúsa í þorpinu sé viðhaldið. Höfuðatriði að ásýndin sé góð vegna starfsemi í ferðaþjónustu og anda í þorpinu.
- Að það séu móttökuskilti með korti af þorpinu þegar komið er inn í bæinn sem og að vinna að því að bæta merkingar uppá Hólaheiði.
- Kortleggja eldri hús á svæðinu og gildi þeirra sem standa ennþá.
- Að gera félagsstarf og listsköpun eldri borgara sýnilegt ferðafólki.
- Að gera höfnina aðgengilega fyrir ferðamenn.
- Vinna áfram með hugmyndir tengdum heimskautsbaugnum sem aðdráttarafl og vettvang fyrir ferðamenn. Heimskautsgerðið og fl.
- Á Raufarhöfn séu starfandi fyrirtæki í afþreyingu tengdri ferðaþjónustu.
Traustir grunnatvinnuvegir
- Að laða að ferðamenn á svæðið. Vinna að því að bæta vegsamgöngur um Sléttu.
- Vinna að fleiri nýsköpunar-/þróunarverkefnum tengdu atvinnulífi staðarins.
Blómstrandi menntun
- Að hér sé starfræktur leik- og grunnskóli. Vinna áfram að því að efla eininguna og nýta betur aðstöðu til fjarfunda og fyrir námsmenn í framhalds og háskólanámi.
- Virkja íbúa til þátttöku í tómstundanámskeiðum.
Öflugir innviðir
- Að komið verði upp sendi fyrir háhraða netsamband í þau hverfi sem hvað lengst eru frá símstöð til að íbúar geti að fullu nýtt sér kosti þess.
- Treysta þjónustumiðstöð í Ráðhúsinu á Raufarhöfn í sessi og viðhalda þeirri grunnþjónustu sem er til staðar í dag.
Tryggja áframhaldandi starfsemi í óskertri heilbrigðisþjónustu og standa vörð um sjúkrabílinn.
Raufarhöfn og framtíðin - Markmið og framtíðarsýn
Raufarhöfn og framtíðin - Skilaboð íbúaþings, janúar 2014