Fara í efni

Raufarhafnarkirkja

Byggingarsaga og helstu munir kirkjunnar Kirkjan

Raufarhafnarkirkja er steinkirkja, byggð árið 1928. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og var tekin í notkun 1. janúar 1929. Kirkjusmiður var Ingvar Jónsson. Raufarhafnarkirkja stendur í norðurenda kauptúnsins og er í nábýli við athafnasvæði smábátahafnarinnar.

Fram til ársins 1929 sóttu íbúar á Raufarhöfn kirkju á Ásmundarstöðum. Á Ásmundarstöðum var hálfkirkja frá Presthólum til ársins 1853, en þá varð sú breyting á að Ásmundarstaðir urðu aðalkirkja í sérstakri sókn; sú sókn náði yfir alla bæi á Austur-Sléttu, frá Rifi að Hóli, og hélst sú skipan til ársins 1911, en þá var sóknin lögð undir Svalbarðssókn.

Fólksfjölgun á Raufarhöfn varð til þess að íbúar fengu kirkju reista í kaupstaðnum árið 1928. Sama ár flutti sóknarpresturinn, sr. Páll Hjaltalín Jónsson, frá Svalbarði til Raufarhafnar. Prestssetur var byggt við kirkjuna og nefndist það Kirkjuból.

Raufarhafnarkirkja fékk ýmsa gamla og merka muni víða að og marga þeirra frá Ásmundarstaðarkirkju.

Altaristafla kirkjunnar var flutt úr Ásmundarstaðarkirkju. Hún var upphaflega máluð af Sveinunga Sveinungasyni, en var endurmáluð af Matthíasi Sigfússyni (1904-1984), listmálara frá Eyrarbakka. Texti altaristöflunnar er úr Mt.11.29: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjartanu lítillátur, og þá munið þér finna hvíld sálum yðar.“

Altarisdúkur var gefinn af Ragnheiði Ingvarsdóttur. Blúndan á dúknum er að mestu af eldri dúk sem var heklaður af frú Guðrúnu Pétursdóttur, en Hólmfríður Friðgeirsdóttir heklaði það sem á vantaði.

Prédikunarstóllinn var, eins og altaristaflan,fluttur úr Ásmundartaðarkirkju. Á efri brún hans stendur áritun: ”Sælir er þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það. L.11.28” og á neðri brún: ”Gefin frá Raufarhafnarhöndlun af C.Th.1851.”

Aðrir munir frá Ásmundarstöðum eru:

Kaleikur, svokallaður byssubikar, er dregur nafn sitt af því að málmurinn er tengir efri og neðri hluta bikarsins er í líki þriggja riffilskotvopna. Bikarinn er sagður gamalt strandgóss úr erlendu skipi sem strandað hafi skammt frá Ásmundarstöðum.

Tinkanna sem gefin var Ásmundarstaðarkikju 1866. Einnig tvær kirkjuklukkur, lítil og stór.

Kirkjan var endurnýjuð árin 1978-1979. þegar líða tók á 8. áratuginn var ljóst að gagngerrra endurbóta var þörf á kirkjubyggingunni, ef hún ætti að þjóna sínu hlutverki áfram, enda hálfrar aldar afmælið að nálgast. Ákveðið var að kirkjan fengi andlitslyftingu og gjöf á stórafmælinu. Viðgerðin hófst síðla árs (6.október) 1978 og tók tæpa 8 mánuði. Kirkjan var tekin aftur í notkun að loknum endurbótum með hátíðarmessu þann 3. júní 1979. Biskupinn yfir Íslandi, herra Sigurbjörn Einarsson, annaðist athöfnina ásamt prófasti Sigurði Guðmundssyni og sr. Sigurvin Elíassyni. Við athöfnina lék Hólmfríður Árnadóttir á orgel kirkjunnar, en svo skemmtilega vildi til að hún hafði leikið á orgelið 50 árum áður á vígsludeginum 1. janúar 1929

Skírnarfontur Raufarhafnarkrikju ber áletrunina: ”Til mín skal börnin bera, svo býður lausnarinn.” Skírnarfonturinn er minningargjöf sem gefin var kirkjunni árið 1985.

Kirkjulóðin var unnin upp í núverandi horf árin 1984-85.

Kirkjugarðurninn var lagaður og stækkaður árið 1985

Safnaðarheimilið

Næsti merkisáfangi í uppbyggingu á kirkjulóðinni var bygging safnaðarheimilisins. Á Hvítasunnudag 7. júní 1992, tók Hallur Þorsteinsson, meðhjálpari til 24 ára, fyrstu skóflustunguna að safnaðarheimili er reist skyldi gegnt kirkjudyrum, á sama stað og prestsetur hafði verið eina tíð. Safnaðarheimilið fékk heiti gamla prestsetursins og nefnist því Kirkjuból. Kirkjuból er að ytra útlit sem smækkuð mynd af kirkjunni að kirkjuturni undanskildum. Safnaðarheimilið var byggt af JJR trésmiðum  á Raufarhöfn.

Nýtt orgel

Um svipað leyti og ákveðið var að reisa safnaðarheimili var ráðist í að kaupa nýtt 4 og ½ radda pípuorgel frá orgelbaumeister Reinhart Tzsehöekel í Þýskalandi. Nýja orgelið kom til Raufarhafnar í byrjun nóvember 1992. Björgvin Tómasson orgelsmiður setti orgelið saman og gerði það albúið til notkunar.

Allar þessar framkvæmdir voru í umsjón sóknarnefndar; formaður var Vilhjálmur Hólmgeirsson.

Hinn 17. janúar 1993 var efnt til hátíðarmessu þar sem séra Bolli Gústafsson, vígslubiskup, vígði nýtt pípuorgel kirkjunnar. Við messuna þjónuðu fyrir altari, ásamt vígslupiskupi, þeir sr. Jón Hagbarður Knútsson sóknarprestur og sr. Eiríkur Jóhannsson á Skinnastað. Sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Ingimar Ingimarsson lásu pistla. Orgelleikari var Iveta Cisarikova og Björg Björnsdóttir í Lóni lék forspil. Margrét Bóasdóttir söngkona flutti stólvers og kirkjukór Raufarhafnar annaðist forsöng.  Að messu lokinni var gengið yfir í Kikjuból og vígslubiskup vígði hið nýja safnaðarheimili. Við víglu safnaðarheimilisins söng kór Raufarhafnarkirkju við undirleik Vigdísar Sigurðardóttur frá Svalbarði. Leikið var á gamla pinanóið hennar Hólmfríðar Árnadóttur (frá 1886), sem kirkjunni var gefið af börnum hennar, í tilefni þess að safnaðarheimilið var tekið í notkun.

Fjöldinn allur af ljósmyndum sem Gunnur Sigþórsdóttur (Dúdú) hefur tekið frá starfsemi kirkjunnar er að finna í safnaðrheimilinu Kirkjubóli.

Í sóknarnefnd eru:

  • Sigrún Björnsdóttir formaður
  • Kristín Þormar Pálsdóttir
  • Þóra Soffía Gylfadóttir
  • Steingrímur Þorsteinsson
  • Jón Ketilsson