Fara í efni

Strákurinn okkar


Jóhann Þór Hólmgrímsson er 21 árs gamall, fæddur og uppalinn í Vogi við Raufarhöfn til 7 ára aldurs. Foreldrar hans eru þau Hólmgrímur Jóhannsson og Ingibjörg María Gylfadóttir. Jóhann Þór býr nú á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni.

Jóhann Þór keppir á Ólympíuleikum fatlaðra sem haldnir verða í Sochi í Rússlandi 7.-16. mars n.k. Jóhann mun keppa á svokölluðum monoskíðum.

“Þetta er fjarlægur draumur sem er við það að rætast, það kom mér mjög skemmtilega á óvart þegar ég fékk að vita að ég myndi taka þátt,” segir Jóhann Þór.

Jóhann fæddist með klofin hrygg og er hreyfihamlaður. Hann hefur gengið í gegnum margar aðgerðir frá fæðingu sem reynt mikið á hann. En íþróttaáhuginn hefur alltaf verið til staðar og hann fór fyrst á skíði þegar hann var sex ára; þá kom hópur frá Aspen í Colorado í heimsókn til Akureyrar að kynna vetraríþróttir fyrir fatlaða. Hann fór svo á námskeið árið 2006 í Hlíðarfjalli á monoskíði og þá var ekki aftur snúið.

Jóhann fór fyrst í æfingabúðir árið 2010 í Winter Park í Colorado, og er þetta þriðji veturinn hans þar í æfingabúðum. Hann æfir 5-6 daga vikunnar og er líka í styrktaræfingum í tækjasal alla daga.

Íslandi var úthlutaður „kvóti“ fyrir tvo skíðamenn, karl og konu, fyrir Vetrarólympíuleika fatlaðra í Sochi. Vegna stórstígra framfara Jóhanns Þórs varð hann fyrir valinu sem karlkynskeppandi Íslands, en líkt og fyrir leikana í Vancouver 2010, hafði Erna Friðriksdóttir náð tilskyldum lágmörkum fyrir Sochi. Erna er frá Egilstöðum.

Þau keppa bæði í svigi og stórsvigi í sitjandi flokki. Erna og Jóhann eru nú bæði við æfingar og keppni í Winter Park í Bandaríkjunum, en þar æfa þau með skíðamönnum m.a. úr bandaríska Ólympíumótsliðinu. Munu æfingar þessar án nokkurs vafa skila þeim niður brekkurnar í Sochi hratt og örugglega.Jóhann

Ólympíuleikar fatlaða verða settir þann 7. mars 2014. Keppni í alpagreinum, greinunum sem Erna og Jóhann taka þátt í, fer fram 13. – 16. mars (svig 13. og 14. mars / stórsvig 15. og 16. mars). Mótinu lýkur síðan með pompi og prakt þann 16. mars.

Við munum að sjálfsögðu fylgjast með stráknum okkar í Sochhi og óskum við honum góðs gengis.

Jóhann heldur úti facebook síðu: Leiðin til Sochi-Jóhann Þór Hólmgrímsson  

Mottó Jóhanns Þórs er: What doesn't kill you makes you stronger.

Markmið: Komast niður brekkuna í Sochi hratt, örugglega og slysalaust :)