Fara í efni

Afmæli skólans

 

Afmæli skólans

Á þessu ári eru 50 ár liðin frá því að núverandi húsnæði grunnskólans var tekið í notkun. Haldið var upp á þessi tímamót 31. maí sl.

Dagskráin hófst kl. 11:00 með því að Jón Magnússon, fyrrverandi skólastjóri, hringdi skólabjöllunni. Þá tóku nemendur við og spiluðu á marimba trommur. Því næst var viðstöddum boðið inn í sal skólans þar sem Frida E. Jörgensen skólastjóri bauð gesti velkomna.

Birna Björnsdóttir kennari við skólann flutti stutta ræðu og Jón Magnússon og Líney Helgadóttir sem bæði eru fyrrverandi kennarar og skólastjórar rifjuðu upp ýmis atvik frá því þau störfuðu við skólann. Óhætt er að segja að ræður þeirra hafi verið afar skemmtilegar og skemmtu viðstaddir sér við að hlusta á Jón rifja t.d. upp frægðarför blakliðsins sem landaði íslandsmeistaratitlinum í blaki grunnskólanna og Líneyju rifja upp þegar kastalinn var reistur við skólann af sjálfboðaliðum svo eitthvað sé nefnt.

Líney gaf skólanum myndaalbúm þar sem hún var búin að safna saman myndum úr skólastarfinu frá sínum starfsárum. Erla Sigurðardóttir menningar- og fræðslufulltrúi Norðurþings hélt einnig stutta ræðu og færði skólanum myndavél að gjöf frá sveitarfélaginu. Að þessu loknu var boðið upp á kaffi og tertu.

Gestum var boðið að skoða skólann þar sem búið var að koma fyrir ýmsum munum úr skólanum. Í einni stofu voru t.d. gömul húsgögn og kennslugögn ásamt verkum nemenda frá fyrri árum. Einnig var búið að safna saman gömlum upptökum af árshátíðum og setja á dvd diska og gátu gestir horft á það. Hægt var að hlusta upptöku frá því að kór grunnskólans flutti verkið um Nóaflóðið sem gert var fyrir Stundina okkar árið 1981 og myndir sem nemendur gerðu í tengslum við það voru til sýnis.

Hér er hægt að sjá myndir frá afmælinu.