Fara í efni

Ályktun frá Norðurhjara

Norðurhjari, ferðaþjónustusamtök fagna því að veitt skuli fé í vegabætur á Langanesströnd við Bakkafjörð í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2015 – 2018. Vegabætur milli Þórshafnar og Bakkafjarðar eru löngu orðnar tímabærar til að tengja saman byggðirnar og ljúka malbikun á norðausturvegi nr. 85.

Að sama skapi eru vonbrigðin mikil að ekki skuli stefnt að því að ljúka vegtengingu á Dettifossvegi, heldur skilja eftir kaflann milli Vesturdals og Dettifoss. Þannig næst ekki nýting á vegarkaflana sem hafa verið byggðir upp beggja vegna og mikilvæg tenging við Mývatnssveit og Dettifoss næst ekki. Sú tenging er mjög mikilvæg fyrir alla uppbyggingu ferðaþjónustu við Öxarfjörð. En þar er nú einmitt í gangi verkefnið Brothættar byggðir sem leggur m.a. áherslu á að byggja upp ferðaþjónustu. Á fjölsóttu samgönguþingi Norðurhjara sl. haust var algjör eining um mikilvægi þessa vegar fyrir ferðaþjónustu og uppbyggingu á norðausturhorninu.

Norðurhjari skorar á alla hlutaðeigandi að taka þessa tillögu til endurskoðunar og ljúka tengingu Dettifossvegar hið fyrsta.

Halldóra Gunnarsdóttir            Norðurhjari - ferðaþjónustusamtök

verkefnastjóri                               nordurhjari@simnet.is     855-1511