Einn formlegur Mærudagur í ár.
Ákveðið hefur verið að hafa einn auglýstan Mærudag í ár að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar forstöðumanns Húsavíkurstofu.
“Nokkrar ástæður eru fyrir því. Sviðið þótti nýtast illa á föstu-dagskvöldinu í fyrra þar sem illa gekk að fá fólk til að skemmta. Það er því ágætis hagræðni í því að þjappa skemmtiatriðum á sviði niður í einn dag.
Einnig þurfti verkefnastjórn að eiga við 50% styrkskerðingu frá Norðurþingi og munar um minna. Því varð að finna leiðir til að skera niður og það að hafa auglýsta dagskrá í einn dag var ágætis leið til þess.
Þá hefur verið mikill meirihluti fyrir því á íbúafundum að hætta að auglýsa hátíðina jafn mikið og verið hefur. Það virðist vera almennur vilji fyrir því að snúa hátíðinni yfir í gömlu góðu "local" hátíðina sem hún einu sinni var og ég lít á þessa hátíð sem fyrsta skrefið í átt að því takmarki.
Það mun án efa verða mikil stemning alla helgina þó formlegur Mærudagur sé bara einn að þessu sinni því öllum er frjálst að auglýsa viðburði á öðrum dögum og eflaust verður töluvert um það”. Sagði Heiðar Hrafn en ábyrgð fyrir löggæslugjaldi er komin frá Norðurþingi og því hægt að fara af stað í alvöru undirbúningsvinnu.
Mærudagurinn verður þann 25. júlí en vonandi hátíð alla helgina.