Glæsileg Tónkvísl að baki
Tónkvíslin, söngvakeppni framhaldsskólans á Laugum, var haldin laugardsgskvöldið 1. mars síðastliðið. Fyrir hátíðina var íþróttahúsinu breytt í tónleikahöll, og það mættu 540 manns í húsið! Undanfarin ár hefur mikið verið lagt í keppnina og hún stórglæsileg; en keppnin í ár var sú stærsta frá upphafi, og heppnaðist hún mjög vel.
Eins og áður er keppninni skipt upp í framhaldsskóla- og grunnskólakeppni. Keppendur í grunnskólakeppninni komu frá Vopnafjarðarskóla, Borgarhólsskóla, Þingeyjarskóla, Reykjahlíðarskóla og Grunnskólanum á Þórshöfn. Alexandra Dögg frá Borgarhólsskóla sigraði grunnskólakeppnina með laginu „Impossible“.
Sigurvegari keppni framhaldsskólans á Laugum var Harpa Benediktsdóttir með lagið „Who You Are“.
Hljómsveit kvöldsins var skipuð nemendum framhaldsskólans og var sem atvinnumenn væru á ferð, slík var spilamennskan.
Krakkar frá Raufarhöfn tóku virkan þátt í Tónkvíslinni í ár; tveir af fjórum kynnum kvöldsins voru þeir Arnór Einar Einarsson og Þorgeir Brimir Harðarson, Arnór tók einnig þátt í söngvakeppni kvöldsins sem og Ágústa Lind Jóhannesdóttir. Öll stóðu þau sig með stakri prýði, og mátti sjá margan stoltan Raufarhafnarbúann í salnum.
Herbert Guðmundsson söng og hélt uppi mikilli stemningu á meðan dómarar voru að störfum og hélt áhorfendum við efnið.
Þess ber að geta að starfsmenn Landans á RUV voru í íþróttahúsinu meðan á undirbúningi stóð; má því búast við að sjá frá Tónkvíslinni 2014 eitthvert sunnudagskvöldið að loknum fréttum.
Endilega fylgist með!
Meðfylgjandi myndir tók Örlygur Hnefill Örlygsson