Heilsuárið 2015
Heilsuárið 2015
Tómstunda og æskulýðsnefnd Norðurþings hefur ákveðið að vinna verkefni sem hefur fengið yfirskriftina „Heilsuárið 2015“ í Norðurþingi. Markmið verkefnisins er að hvetja íbúa sveitarfélagsins til aukinnar heilsueflingar í víðum skilningi. Það er gömul saga og ný að betri heilsa og aukin vellíðan íbúa stuðlar að hamingjusamara samfélagi. Eitt af megin hlutverkum sveitarfélagsins á að vera að skapa íbúum umhverfi og aðstæður sem auðveldar fólki að lifa heilsusamlegu lífi, t.a.m. gegnum aukna hreyfingu, holla næringu og eflingu geðræktar í skólum og stofnunum sveitarfélagsins. Tómstunda og æskuýðsnefnd hefur skipað starfshóp og fengið starfsmann til að halda utanum verkefnið. Til að ná markmiðum verkefnisins er t.a.m. tillaga starfshópsins að gera meira úr þeim heilsueflandi viðburðum sem íbúar sveitarfélagsins hafa verið duglegir að taka þátt í síðustu ár, svo sem verkefninu Hjólað í vinnuna og Kvennahlaupið. Lögð verður áhersla á að ná enn betri þátttöku í þessum verkefnum heldur en verið hefur áður. Einnig verður bryddað uppá nýjungum eins og heilsueflandi viðburði í vor og öðrum í haust á vegum Heilsuársins 2015. Allar hugmyndir um verkefni stór sem smá sem tengjast heilsueflingu á einhvern hátt eru vel þegnar. Hugmyndum má koma á framfæri á netfangið ernabj@nordurthing.is Það er von okkar að sem flestir íbúar finni sér farveg til að efla heilsu sína og fjölskyldunnar alla daga ársins. Vonandi verður Heilsuárið 2015 allavega lítið skref í þá átt að auðvelda okkur íbúum sveitarfélagsins að gera gott samfélag heilsueflandi samfélag. Erna Björnsdóttir verkefnisstjóri