Fara í efni

Hrossarækt á Raufarhöfn

Hjónin Hrönn Harðardóttir og Þór Friðriksson og börn þeirra, Hrannar Þór og Rósa Björg, hafa lagt stund á hrossarækt hér á Raufarhöfn undanfarin ár. Fjölskyldan hafði verið í hestamennsku í nokkur ár og áttu þau hesta sem þau brúkuðu sér til skemmtunar áður en þau ákváðu að hefja ræktun.


Árið 2009 keyptu þau hryssuna Nínu frá Efri-Brú, sex vetra brúna hryssu undan Aroni frá Strandarhöfða og Gígju frá Efri-Brú. Þau keyptu hryssuna fylfulla og vorið 2009 fæddist Virðing, rauð hryssa undan Glym frá Innri-Skeljabrekku.




Árið 2010 fór Nína í dóm og fékk 1. verðlaun. Það sama ár var Nínu haldið undir gæðinginn Hróð frá Refsstöðum, og vorið 2011 kastaði Nína brúnu hestfolaldi sem hefur fengið nafnið Stæll.

 

 

Sama ár var Nínu haldið undir hinn fræga stóðhest Álf frá Selfossi og vorið 2012 fæddist brúnskjótt hestfolald sem, Raufarhafnarbúum til mikillar ánægju, fékk nafnið Félagi.

 

 

 

Nínu var aftur haldið undir Álf frá Selfossi það sama ár, og vorið 2013 fæddist brúnt hestfolald sem hefur ekki fengið nafn þegar þetta er ritað.

Nínu var haldið undir Hágang frá Narfastöðum sumarið 2013 og er von á folaldi núna í vor. 

 

Þau Þór, Hrönn, Hrannar og Rósa eru rétt að byrja sína ræktun, og verður spennandi að fylgjast með hvaða toppstóðhest þau velja næst fyrir Nínu sína.