Hversdagsleikhúsið í ráðhúsinu á Raufarhöfn
Í tengslum við sýninguna Engillinn, sem frumsýnd verður í Þjóðleikhúsinu 21. des, stendur Þjóðleikhúsið fyrir listgjörningi um allt land. Hversdagsleikhúsið verður að finna á 10 stöðum. Hversdagslegt rými verður leiksvið, fólk að störfum og gestir og gangandi í hversdagslegum erindagjörðum verða leikarar og þeim sem sest í sætið býðst að verða áhorfandi og vonandi sjá hversdagsleikann í öðru ljósi
Hversdagsleikhúsið verður að finna á eftirtöldum stöðum:
- Akureyri - Listasafnið á Akureyri / Akureyri Art Museum
- Akureyri - JMJ Herradeild
- Húsavík - Salvía
- Raufarhöfn - Pósthúsið
- Seyðisfjörður - Herðubreið
- Djúpivogur - Hótel Framtíð
- Keflavík - Hárátta
- Reykjavík - Vesturbæjarlaug
- Reykjavík - Reykjavíkurflugvöllur
- Ísafjörður - Bókasafnið, Safnahúsinu
Verkefnið á Facebook!
Verkefnið heiðrar minningu Þorvaldar Þorsteinssonar myndlistarmanns, rithöfundar og leikskálds. Staðirnir voru valdir með hversdagsleikann í huga; kunnuglegir staðir sem við höfum kannski gleymt að búi yfir nokkrum töfrum eða sögum. Allt í nafni Þorvaldar sem sá einmitt alltaf töfrana í hinu hversdagslega og vann mikið með hverdagsleikann sem konsept, bæði í myndlistarverkum, textum sem og leikverkum.
Sýningin Engillinn er er byggð á verkum Þorvaldar. Finnur Arnar Arnarson, myndlistarmaður og leikmyndahöfundur, skapar sýningu upp úr verkum Þorvaldar þar sem saman koma örverk, brot úr lengri verkum og vísanir í myndlist og gjörninga.
Rithöfundurinn, myndlistarmaðurinn og kennarinn Þorvaldur Þorsteinsson (1960-2013) féll frá langt fyrir aldur fram, en skildi eftir sig fjölda verka sem notið höfðu mikillar hylli, meðal annars örleikrit, leikrit í fullri lengd og handrit fyrir sjónvarp og útvarp. Í leiksýningunni Englinum er arfleifð Þorvaldar heiðruð.