Fara í efni

Jóhann Þór tekur þátt í stórsvigi á laugardaginn

Jóhann Þór Hólmgrímsson er úr leik í svigi í sitjandi flokki á vetrarólympíumóti fatlaðra í Sochi í Rússlandi. Hann fór út úr brautinni og missti af hliði neðarlega í brekkunni.  Jóhann Þór var 38. í rásröðinni.  Brautin var orðin mjög grafin þegar hann lagði af stað og var Jóhann Þór langt frá því að vera eini keppandinn sem lenti í erfiðleikum í brautinni. Ellefu keppendur til viðbótar fóru út úr brautinni.  Þess má geta að Jóhann Þór sýndi stórgóða skíðamennsku.

Jóhann á þó, eins og Erna Friðriksdóttir, eina grein eftir á mótinu. Bæði eiga þau eftir að keppa í stórsvigi, Jóhann þann 15. mars og Erna þann 16. mars.  Keppni hefst kl. 05:30 að íslenskum tíma; spurning hvort íslenskir áhorfendur vakni snemma, ferskir og kátir, eða vaki þar til keppnin hefst! Ef Jóhann fer niður brautina í fyrri ferðinni, þá hefst seinni ferð kl. 09:00 að íslenskum tíma. Áfram Ísland!