Jónas Friðrik Guðnason samdi fyrir þorrablót 2015 skemmtilegan þorrabrag.
Jónas Friðrik Guðnason samdi fyrir þorrablót 2015 skemmtilegan þorrabrag sem verður sunginn á blótinu og vonandi á öllum blótum hér eftir. Nú er um að gera að æfa sig, lagið er „Þá stundi Mundi“.
Þorrablótssöngur
Á norðausturhorninu hitastig er
hækkand´er líða á janúar fer.
Þá bursta menn skóna og bóna í hel
sköllótta karla, svo skíni þeir vel.
Og svo gaula Raufsar: þett´er gott, þett´er gott,
nú þorrablót höldum og það verður flott.
Og brottfluttir Raufsar þá brjótast um fjöll
í brjálaðri ófærð. „Nú mætum við öll“.
Í framhald´af því verður klappað og kysst
og hlegið og grátið af hreinustu list.
Og þá raula Raufsar: þett´er flott, þett´er flott,
á þorrablót förum, það finnst okkur gott.
Og svo verður dregið fram allt sem er ætt
og ef til vill fleiru í dallana bætt.
Og eins verður sullað með ýmislegt blaut:
ósoðið, þrísoðið, hvítt bæð´og rautt.
Og þá gaula Raufsar: þett´er hikk, þett´er hikk.
Á þorrablót förum, þá fæ ég mér drykk.
Og þá verður kjamsað um súrt bæð´og sætt
og sumt jafnvel gleypt þar, sem telst varla ætt.
Og reykt bæð´og saltað og sviðið og kæst
er sett on´í hítina ef til þess næst.
Og þá rymur Raufsinn: þett´er sælt, þett´er sælt.
Þá hákarl er bestur ef honum er ælt.
Og hér er ei talað neitt hæverskurugl,
en hávær og montinn hver einasti fugl.
Og refsing ei sett á þig sár eða þung,
þó segir þú konu að bíta í pung.
Og svo gaular Raufsinn: þetta yndislegt er
og sjáðu nú engillinn eistun hjá mér.
Og nóttin hún líður við daður og dans
af dugnaði hreinum, svo verður ei stans.
Því hvernig sem árin þig á hafa sótt,
þú yngist að nýju á þorrablótsnótt.
Og þá syngja Raufsar: þett´er kátt, þett´er kátt,
þorrablót er það, svo höfum nú hátt.
Og loks undir morgunn þeir mjakast svo heim,
margir á fjórum, en aðrir á tveim.
Og sannað enn hafa að hvergi má sjá
jafn helruglað sukkaralið eins og þá.
Og þá stynja Raufsar: er þett´ekk´orðið gott?
Við þorrablót héldum, var það ekki flott?
Og þá stynja Raufsar: er þett´ekk´orðið gott?
Við þorrablót héldum, var það ekki flott?
J.F.G