Fara í efni

Kæru Þingeyingar

 Ég á sæti á B-lista Framsóknarflokks fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, 9. sæti nánar tiltekið.  Ekkert baráttusæti auðvitað en ég vil gjarnan leggja mitt af mörkum og langaði því að skrifa ykkur bréfkorn og minna á okkur í Framsókn.

Mig langar til að biðja ykkur að hugleiða nokkur atriði sem mér finnst mikilvægt að koma að og auðvitað tengjast þau starfi mínu sem lögreglumaður og sem frambjóðanda á lista.  Mér finnst rétt að huga að því að forvarnir í hvers konar mynd,  eru nauðsynlegar í hverju samfélagi og aldrei má sofna á verðinum hvað varðar þann málaflokk, í hvaða mynd sem er.

Eins og við vitum  snýst allt þegar á botninn er hvolft um krónur og aura og  stundum er viljinn einn til að láta gott af sér leiða ekki nægur til þess að ná árangri.  Það þarf samt vilja og lifandi umræðu til að þeir sem með málefnin fara leggi áherslu á  mikilvæg atriði sem geta orðið útundan í umræðunni. Forvarnir hafa stundum lent á kantinum. Það þarf fjölbreytileika og sem flestar hugmyndir upp á borðið til að mál nái fram að ganga og þar er það samvinna og samstaða sem þarf. Við hjá Framsókn erum tilbúin að leggja okkar að mörkum til að bæta samfélagið okkar Norðurþing og leggja áherslu á þau atriði sem skipta máli.

 

Forvarnir

Hvað forvarnir varðar, þá mætti gera betur og mikilvægt að marka heildstæða forvarnarstefnu.  Við þurfum ekki að finna upp hjólið í því, heldur leita í brunn annarra sveitarfélaga sem hafa þegar markað heildstæða forvarnarstefnu og fylgt henni eftir markvisst.

   Hvað varðar nærtæk dæmi, þá eru fíkniefnaforvarnir mjög mikilvægur hluti forvarnarstarfs.  Þar má ekki sofna á verðinum.  Það að halda að við búum langt frá fíkniefnadjöflinum er tálsýn ein.  Það er mikilvægt að foreldrar kynni sér einkenni neyslu og fylgist með unglingnum sínum.

Mig langar í því sambandi að koma að  fíknefnasímanum, númeri sem hægt er að hringja í ef grunur er um neyslu eða ef fólk hefur upplýsingar um fíkniefni.  Fíkniefnasíminn er 800-5005

 

Fallegt samfélag

Kæru samborgarar.  Við megum heldur ekki sofna á verðinum í athöfnum daglegs lífs. Við skulum faðma hvert annað og styðja þegar erfiðleikar steðja að.  Bros getur dimmu í dagsljós breytt .  Ég skal leggja mitt af mörkum til þess og lofa að brosa til ykkar þegar ég mæti ykkur á götu.

   Það er svo margt sem skiptir okkur máli, fjölskyldan og heimilið, atvinna og búseta, þjónusta og verslun, tómstundir og íþróttastarf, fjármál, félagsmál,  skipulagsmál og svo mætti lengi telja.  Við í Norðurþingi búum á einu fallegasta landsvæði á Íslandi, stutt er í yndislegar náttúruperlur og við höfum svo mikla möguleika á að gera gott svæði enn betra með samvinnu og samstöðu.  Ég gleðst t.d mjög yfir samvinnu hvalaskoðunarfyrirtækja sem nú var í fréttum nýverið, sameiginlegt vörumerki til að vekja athygli á svæðinu.

 

Heimatilbúin forvörn

Eitt er mér ofarlega í huga sem liður í forvörnum og sýnir samtakamátt samfélagsins. Möguleikinn á nýjum skíðamannvirkjum upp í Reyðarárhnjúk.  Ég segi nú bara eftir að hafa farið þangað upp eftir á fjölskyldudaginn sl. páska; Hlíðarfjall hvað?  Skíðaráð Völsungs og björgunarsveitin Garðar, auk allra annarra einstaklinga sem gerðu þennan dag að veruleika og opnuðu augu margra fyrir þessu svæði og perlu hér rétt ofan við Húsavík;  Takk, takk, takk.   Þetta svæði hefur alla möguleika til að verða eitt af betri alhliða skíðasvæðum á landinu, með tilheyrandi vetrarferðamennsku og margföldunaráhrifum í allri þjónustu fyrir fólk sem hefur áhuga á skíðamennsku og útivist og gæti orðið heimsþekkt með góðri kynningu.  Þetta yrði mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið okkar og myndi auka ferðamannastraum hingað að vetri til.  Það hefur vonandi áhrif á sveitarfélög í nágrenni okkar og gerir landið okkar allra og þetta yndislega landsvæði sem við byggjum betra.

   Þar þarf að standa vörð um og hlúa að byggð í öllu sveitarfélaginu og tryggja búsetuskilyrði, bæði sveitina í gamla Öxarfjarðarhreppi, Núpasveit,Kópasker og Raufarhöfn.  Þessar byggðir hafa átt undir högg að sækja og þarf að styðja og styrkja búsetu og halda þjónustu þannig að allir í sveitarfélaginu sitji við sama borð.

   Sem samborgari ykkar skal ég leggja mitt af mörkum til að gera þetta samfélag okkar í Norðurþingi enn betra.  Þið gerið það líka með samstöðu og samheldni.   Ég hvet ykkur til að taka ábyrga afstöðu og setja X við B á kjördag.

 Lifið heil.  Addi lögga.