Fara í efni

Kveðja frá Kristjáni

Jónas, María og ÞóraRaufarhafnarbúar – til hamingju með heimasíðuna ykkar!

 

Sem kunnugt er stendur yfir átaksverkefni í Byggðamálum á Raufarhöfn.  Eitt af því sem fram kom á íbúafundum verkefnisins síðastliðinn vetur, var að mörgum þætti full ástæða til að íbúar þorpsins stæðu að lifandi heimasíðu er fjallaði um byggðarlagið og mannlíf á Raufarhöfn frá degi til dags.  Er þá ekki með neinu móti verið að varpa rýrð á ágætt framtak aðila sem á undanförnum árum hafa tileinkað heimasíður sínar Raufarhöfn í máli og myndum.

Síðastliðið vor komst hreyfing á þetta mál og tveir galvaskir íbúar, þau María Peters Sveinsdóttir og Jónas Friðrik Guðnason ákváðu að takast á við það verkefni að koma síðu á flot. Undirritaður veitti þeim stuðning með því að athuga möguleika á hagstæðu vefumsjónarkerfi.  Niðurstaðan varð sú að Norðurþing veitti góðfúslegt leyfi til að nota lénið www.raufarhofn.is og tók jafnframt að sér að greiða upphafskostnað við að stofna heimasíðuna undir vefumsjónarkerfi sveitarfélagsins.  Síðan verður íbúum því að kostnaðarlausu að öðru leyti en því að leggja þarf fram vinnu við stofnun og umsjón vefsins.  Norðurþing á þakkir skildar fyrir að leggja umsjónarkerfið til.

Nú á síðustu mánuðum gekk Þóra Soffía Gylfadóttir til liðs við hópinn og hafa þau þremenningarnir lagt mikla vinnu í undirbúning síðunnar með þeim mikla og góða árangri sem þið nú sjáið.  Vil ég þakka fyrir áhuga þeirra og dugnað fram að þessu en treysti því jafnframt að þau séu rétt að hefja flugið.

Ég vil að síðustu hvetja ykkur íbúa, svo og aðra velunnara Raufarhafnar, til að koma efni á framfæri við þessa vösku einstaklinga sem leggja fram vinnu sína við heimasíðuna.  Með ykkar þátttöku verður síðan lifandi og skemmtilegur vettvangur fróðleiks og umræðu um byggðarlagið á komandi dögum, mánuðum  og árum.

 

F.h. átaksverkefnis á Raufarhöfn,

Kristján Þ. Halldórsson