Leikföng fyrir sundlaugina- fréttir af vinnuhóp íþróttamiðstöðvar
Ekki hefur mikið gerst hjá vinnuhópnum síðustu misseri þar sem flestar heildsölur standa tómar eftir að landinn tæmdi þær allar og fór að stunda heimaþjálfun á tímum Covid-19.
En upphitunartæki eru væntanleg með haustinu. Gríðarleg aðsókn hefur verið í sundlaugina síðan hún opnaði í maí og hafa íbúar verið duglegir að nýta húsið. Veður hefur verið gott hér norðaustanlands það sem af er sumars og mikið um gesti í bænum sem hafa verið duglegir að nýta sundlaugina og íþróttamiðstöðina, sem er ánægjulegt!
Ákveðið var að fjárfesta í leiktækjum í sundlaugina fyrir yngstu gestina og vonandi á það eftir að vekja lukku. Tækin eru flottæki þar sem notað er þéttara efni heldur en almennt er gert og skilar það sér í sterkbyggðari og endingarbetri leiktækjum. Sjáumst í sundi á Raufarhöfn!
Hér er facbooksíða hússins
Um leið og við þökkum þeim fjölmörgu sem nú þegar hafa styrkt verkefnið viljum við benda á að enn er hægt að leggja því lið. Gaman væri að gera enn betur og kaupa inn fleiri tæki og leikföng. Bankaupplýsingar UMFL Austra eru 0179-05-000110 Kt: 570785-0369. Margt smátt gerir svo sannarlega eitt stórt.