Fara í efni

Mikið frelsi á Raufarhöfn!

Nemendur í 9. og 10. bekk Grunnskóla Raufarhafnar unnu á dögunum verkefni um þorpið sitt, Raufarhöfn. Þau fjölluðu um atvinnulíf á staðnum, helstu vinnustaðina, náttúruna, merka staði og síðast en ekki síst um kosti þess að vera unglingur á Raufarhöfn.

Dagný er í 9. bekk, en þau Birgir, Birkir, Brynja, Friðrik og Hákon eru í 10. bekk.

Þau nefndu sjávarútveg sem helstan atvinnuveg á staðnum; bátana sem róa og sjómennina sem eru til sjós, frystihúsið sem veitir sem flestum atvinnu á Raufarhöfn; SRS véla- og trésmíðaverkstæði, hótel Norðurljós og Gunnubúð.


Unglingarnir eru ánægð með að það sé verslun á Raufarhöfn, að kaffihúsið og galleríið Kaffi Ljósfang sé til staðar, Hótel Norðurljós, sem og félagsheimilið Hnitbjörg. 

Þegar þau eru spurð um merka staði á Raufarhöfn þá nefna þau Höfðann og Heimskautsgerðið, en þeim finnst einnig mikið til um náttúruna og fuglalífið á staðnum.

Þegar unglingarnir eru spurðir um kosti þess að búa á Raufarhöfn, þá tala þau öll um frelsið og öryggið sem þau njóta á svona litlum stað; þau geta farið út með vinum sínum hvenær sem er og gert það sem þau langar til. Efnilegir hestamenn í hópnum eru ánægðir með góða aðstöðu fyrir hestamenn; hér er stórt hesthús með reiðhöll. Ungmennin segja að Raufarhöfn sé sterkt samfélag þar sem allir þekkja alla, og að hér sé nóg að gera allan ársins hring.