Fara í efni

Nafni Hall eftir Jónas Friðrik Guðnason

Jónas er fæddur á Raufarhöfn 12. desember 1945. Útskrifaður af Samvinnuskólanum á Bifröst vorið 1966 og hefur síðan unnið aðallega við skrifstofustörf, lengst af á Raufarhöfn. Hann fékkst lengi við gerð söngtexta og hafa um 200 af þeim verið hljóðritaðir. Jónas er nú að mestu hættur textagerð en hefur snúið sér að því að setja saman limrur og vísur af kaldhæðnu og stundum blálituðu tagi. Einstaka sinnum snýr hann út á sér skárri hliðinni og yrkir kvæði á borð við sonnettuna „Nafni Hall“ sem tileinkuð er Jónasi Hallgrímssyni og er samin nú í febrúar.


Ef litið hefur húfu og rauðan skúf 
og hitt þá stúlku, sem af öðrum ber 
og unir síðan æ í huga þér, 
yndisfögur, heillandi og ljúf.

Staðið svo á Heklutindi hám 
og horft með Páli yfir land og sjá 
og greitt slíkt lokkaflóð við Galtará 
að greiðsla önnur teljast verður klám.

Og veist ef lúin lundin er og þreytt 
á land þitt margan undurgóðan stað 
hvar vorboðinn þig vekur söngvasnjall.

Fátæktarbaslið fær þá engu breytt, 
fótbrot í stiga, hverju skiptir það? 
Með tímanum verður þú tíuþúsundkall.