Norðurþing – Skapandi samfélag
Frá því ég man eftir mér hafa verið umræður og aðgerðir þess efnis að auka atvinnutækifæri og sporna við fólksfækkun í Þingeyjarsýslu. Margt hefur verið reynt og tekist að halda á lífi, annað hefur runnið út í sandinn eins og gengur, fyrirtækjum lokað eða þau flutt annað. Afleiðingarnar eru að íbúum fækkar í sveitarfélögunum, tekjur minnka og skuldirnar sitja eftir. Þingeyingar hafa lengi byggt atvinnulíf sitt á þremur stórum stoðum; landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Nú hyllir í að fjórða stóra stoðin sé að verða að veruleika þar sem nýting háhitasvæða til framleiðslu rafmagns til orkufreks iðnaðar í héraði. Við nálgumst einnig það markmið að góð útflutningshöfn verði á Húsavík sem nýtist til hverskonar inn- og útflutnings afurða um heimsins höf.
Skapandi atvinnuvegir
En tækniþróun dugir ekki lengur ein og sér, þar sem sífellt færri hendur þarf við verkin. Samfélög verða líka að byggja á öðrum og mannlegri þáttum. Víðs vegar um heim hafa gildi skapandi atvinnugreina aukist verulega á síðustu áratugum og þar með aukin vitund fólks á jákvæðar afleiður, bæði samfélags- og efnahagslegar. Möguleikum menningarlegrar nýsköpunar er gert hærra undir höfði en áður. Algengt er orðið að þéttbýlissvæði skapi sér sterka ímynd til að styðja við skapandi atvinnuvegi, skapa jákvætt samkeppnishæft viðskiptaumhverfi og skipulag. Ekki einungis fyrir ferðamenn, sem er nauðsynlegt, heldur einnig skapandi atvinnulíf og menningarstarfsemi íbúanna sjálfra. Þegar fólk velur sér búsetu þá skiptir þéttbýlissvæðið meira máli heldur en hvaða land verður fyrir valinu. Fólkið byggir upp þá atvinnu sem gefur möguleika til vaxtar og samfélagið dafni með.
Eftir að grunnskólagöngu lýkur byrja mörg ungmenni í framhaldsskóla, ýmist í bóklegt nám eða verklegt. Hjá mörgum tekur háskólanám við og þá jafnvel í erlendum háskólum því ekki er sjálfgefið að Ísland verði fyrir valinu. Ekki snúa allir til heimahaganna aftur, reyndar alltof fáir ef við horfum á mannfjöldaþróunina. Það eru breytingar í aðsigi. Við verðum að vera viðbúin tækifærum nútímans og sem best undirbúin fyrir framtíðina. Eigum við eftir að upplifa það að alþjóðleg viðmið verði í framhaldsskólum og nemendur hafi val um námsleið þar sem kennsla fer fram á ensku? Jafnvel á grunnskólastigi?
Vinnum saman
Margt er mjög vel gert á listasviðinu í sveitarfélaginu og eru mýmörg tækifæri til að skapa sterkari umgjörð skapandi samfélags og vera enn framar á sviði menningar, lista og hönnunar. Ég hlakka til að fylgjast með starfseminni í Verbúðunum á Húsavík og sjá hver þróunin verður þar. Ég hlakka líka til að gæða mér á ostrum og bláskel úr Skjálfandaflóa, njóta fjölbreytileikans sem ýmsir aðilar bjóða upp á. Möguleikarnir eru óþrjótandi og ánægjulegt þegar fólk hefur hugmyndir sem það hrindir í framkvæmd og sjá þær dafna. Samfélag sem togar í fólk sem gefur fjölbreytileikanum lausan tauminn án þess að aðrir hverfi frá, er gott samfélag. Vinnum verkefnin saman, verum samkeppishæf á sem flestum sviðum og tilbúin að mæta framtíðinni.
Soffía Helgadóttir, bæjarfulltrúi
Skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Norðurþingi