Fara í efni

Nýir tímar!

Nýir tímar!

 Kæri lesandi. Hér er fjallað um sameinað samfélag, nýja framtíð og að sjálfsögðu  hin fjölbreyttu og margumræddu málefni ungmenna.

Þetta eru einhver mikilvægustu málefni hvers samfélags og því ekki furða að um þau sé rætt. Hvernig skilgreinir maður þó málefni ungmenna?
Það gætu verið skemmtileg mál á borð við skapandi og fjölbreyttan vinnuskóla, uppbyggilegar félagsmiðstöðvar sem byggja á jafnrétti og lýðræði, alvöru baráttumál eins og heimavist í heimabyggð eða sanngirnismál eins og jöfn aðstaða til tómstunda- og íþróttaiðkunar óháð búsetu.

Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er okkur ekki framandi mál og ungmenni á öllu landinu virðast vera sammála um að kynjafræði ætti að vera meira áberandi á öllum skólastigum. Kynheilbrigði er síðan ákveðið tabú sem má oft ekki ræða við matarborðið en snertir okkur öll.

Málin flækjast aðeins þegar við ætlum að skilgreina hvað það er að vera ungmenni. Eru það einungis ungmenni á aldrinum 13-30 ára eins og tíðkast í æskulýðsgeiranum eða erum við óhrædd við að víkka þessa skilgreiningu? Við gætum þá allt eins talað um 50+ ungmennin sem eiga þátttökurétt á landsmóti UMFÍ á Húsavík í sumar en kannski tíðkast bara að ræða um málefni fullorðinna eftir að fólk verður þrítugt. Hvernig sem það er þá er nokkuð ljóst að flest mál eiga upp á borðið hjá ungmennum, óháð aldri!

 Fólkið á bakvið tjöldin

 Fæðing sveitarfélagsins árið 2006 er mér hugleikin þar sem mér finnst stundum eins og einungis hafi orðið sameining stofnana á meðan samfélagið sat eftir. Stofnanir sveitarfélagsins eru vissulega komnar á gott ról í sameinuðu sveitarfélagi, mannaðar frábæru starfsfólki sem hefur unnið magnað starf seinustu árin. Það má m.a.sjá af nýútgefinni skýrslu sem fjallar meðal annars um jákvæðar horfur í fjármálum Norðurþings. Það væri auðvelt fyrir stjórnmálamenn að eigna sér alfarið heiðurinn af þeim tölum en sannleikurinn er sá að í gegnum þær skín þrotlaus og óeigingjörn vinna allra þeirra sem einsettu sér að finna nýjar og frumlegar leiðir til þess að ná endum saman þrátt fyrir erfiðan niðurskurð. Þar eiga starfsmenn Norðurþings heiður skilinn.

Hvers vegna flytur ungt fólk í burtu?

Stofnanir eru þó ekki allt og ef við náum ekki að sameina samfélagið líka þá er voðinn vís. Ég er laumu-rómantíkus og hef mikla trú á því að við getum tekist á við hvaða verkefni sem er í sameiningu.

Fjölmörg verkefni eru t.a.m. miðuð að því að sameina börn og ungmenni á grunnskólaaldri hvaðanæva að úr sveitarfélaginu. Þetta er gert til að efla félagslíf og stuðla að tengslum ungmenna innan sveitarfélagsins  þrátt fyrir athugaverðar tímatöflur almenningssamganga sem virðast alls ekki hannaðar fyrir þá sem helst þyrftu á þeim að halda, nefnilega börn, ungmenni og eldra fólk.
Allt of oft sjáum við það svo gerast að vegna óviðunandi búsetuskilyrða þá líta ungmenni utan Húsavíkur ekki á bæinn sem valkost fyrir framhaldsnám og verða þau bönd sem unnið var hörðum höndum við að skapa oft að litlu. Það er að sjálfsögðu slæmt enda mikið hagsmunamál að geta stundað nám í sinni heimabyggð. Við látum í okkur heyra þegar fólk flytur af svæðinu vegna vinnu en nú í haust sjáum við fram á að minnsta kosti fimmtán ungmenni úr Norðurþingi ákveði að sækja sér nám annarsstaðar. Það er umhugsunarvert þegar 16 ára barn neyðist til þess að flytja að heiman og sækja nám sitt fjarri heimahögum. Ég held því þó fram að þetta sé verkefni til þess að leysa enda hljótum við öll að vilja búa í sveitarfélagi sem vill halda í sína íbúa eins og kostur er til þess að samfélagið geti allt dafnað í heild sinni.

 Nýjar áherslur fyrir nýja tíma

Núna eftir örfáar vikur göngum við til kosninga og kjósum okkur nýja stjórn í ungmennafélaginu (Sveitarfélaginu) Norðurþingi. Gömul stjórn skilar ágætu verki en nú eru nýir tímar framundan þar sem fyrri deilumál eiga að vera að baki og skuldir úreltra skotgrafa felldar niður. Málin sem hafa einkennt umræðuna síðustu árin eru loks komin í nokkuð öruggan farveg og röðin komin að samfélaginu. Þar bíða verkefni sem þarfnast tíma og athygli, ekki einungis frá stjórnmálamönnum og þeirra samstarfsfólki í stjórnsýslunni, heldur frá samfélaginu öllu. Næstu fjögur ár eiga að einkennast af  jákvæðri og bjartsýnni samvinnu allra íbúa sveitarfélagsins. Sameinuð getum við landað verkefnum komandi tíma. Fyrir það stendur V-listinn og fyrir því mun hann berjast.

 Aðalbjörn Jóhannsson:

Höfundur skipar 4. sæti á V-lista Vinstri-Grænna og óháðra