Nýtum auðæfi landsins til sjávar og sveita
Forsenda góðs mannlífs á landsbyggðinni er atvinnuöryggi. Varðandi fiskveiðar og verkun verður það ekki tryggt, meðan við búum við það kerfi sem Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur komu á, þ.e.a.s. frjálsa sölu veiðiheimilda. Þetta kerfi gerir það mögulegt og löglegt að svipta heila landshluta lífsbjörginni og hefur valdið skaða í svo mörgum byggðarlögum við strendur landsins, að vandséð er hvernig fólk sem býr úti á landi getur kosið áðurnefnda flokka. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða, þar sem sameign þjóðarinnar er í veði.
Landsbyggðarfólk verður að halda vöku sinni, við núverandi ástand verður ekki unað.
Ónotuð orka gefur okkur tækifæri til atvinnusköpunar á mörgum sviðum,t.d. í iðnaði, ferðaþjónustu og landbúnaði. Víða í sveitarfélaginu eru stór gróðurvana landsvæði, sár sem þarf að græða. Við getum ekki skilað landinu til næstu kynslóða með núverandi ásýnd. Þetta tengist reyndar öðru, sívaxandi vandamáli, sorpeyðingu. Allt lífrænt sorp inniheldur verðmæt næringarefni, sem við eigum alls ekki að urða, heldur leitast við að nýta sem mest til uppgræðslu og myndunar jarðvegs, í stað þess sem fokið og runnið hefur til sjávar. Ein aðgerð getur þannig verið lausn á tveim vandamálum.
Jarðvegur er forsenda ræktunar og sé komið upp sjálfbærum vistkerfum, geta þau gefið margskonar uppskeru og skapað atvinnu til framtíðar, auk kolefnisbindingar. Nefna má góðan vöxt lerkis norður af Ásbyrgi. Þar er dæmi um mikla verðmætasköpun upp úr eyðisöndum, sem annars komu engum að gagni. Í samvinnu við Landgræðsluna þurfum við að nýta slík tækifæri.
Höfundur skipar 4. sæti lista Samfylkingar og annars félagshyggjufólks í Norðurþingi
Björn Halldórsson