Ocean Diamond heimsótti Raufarhöfn
Fimmtudaginn 8. júní heimsótti skemmtiferðaskip Raufarhöfn. Þetta er eitt fyrsta skipið sem heimsækir staðinn og í fyrsta skipti þar sem eru skipulagðar ferðir með farþega. Travel North tók á móti farþegunum 200 þegar þeir komu í land og leiðbeindu með gönguleiðir og styttri rútuferðir. Farþegum var einnig heilsað með kökubita til að fagna komu þeirra og voru þeir himinlifandi með þessar móttökur.
Veðrið heilsaði með skini og skúrum en farþegar voru vel búnir svo að dvölin hefur þeim vonandi verið ánægjuleg.
Skipið sem kom heitir Ocean Diamond og rúmar um 250 farþega. Skipið er um 125 metrar að lengd og því gat það ekki lagst að bryggju þannig að farþegar skutust í land á gúmmíbátum. Þrusustuð var á öllum þegar þeir komu í land og gaman var að sjá hvernig þorpið lifnaði við og litríkir stakkar sáust á gangi um allt þorp.
Þetta skip er vonandi vísir að meiru og væri gaman að sjá fleiri í framtíðinni. Hægt er að sjá fleiri myndir hér.