Fara í efni

Opið bréf til frambjóðenda Norðurþings

 

Opið bréf til frambjóðenda Norðurþings

Nú þegar líður að sveitarstjórnarkosningum fer hugurinn  á flug með það sem betur má gera og hvað fullkomið samfélag ber með sér.

Við vitum að Norðurþing er sveitarfélag með alla burði til að verða ferðamannaparadis og hefur Húsvíkingum tekist vel til í ferðamannaiðnaðinum. Nú þarf bara að taka höndum saman og  fá ferðamennina  líka örlítið austar. Kópasker, Melrakkaslétta og Raufarhöfn búa yfir náttúruperlum og ósnortinni náttúrufegurð sem stór hluti ferðamanna sækir í.

En til þess að þetta verði að veruleika verður að standa vel að þessu og byggja upp samgöngur sem eru víða bágbornar. T.d. er oft svo stórgrýttur vegurinn um Melrakkasléttu að fólk sem er á húsbílum og fólksbílum hugsar sig tvisvar um áður en það leggur í ferðalag um Sléttuna.

Einnig er nettengingin hér mjög slæm; til þess að hérna geti skapast samfélag sem unga fólkið vill búa í verður að vera  nettenging sem er viðunandi. Í dag er internetið gríðalegur samskiptamiðill og geta mörg fyrirtæki verið staðsett hvar sem er á landinu ef nettenging er í lagi.

Hér á Raufarhöfn stendur blokk sem er því miður ekki sinnt sem skildi af eigendum. Staðan er núna sú að blokkin er rafmaglaus að hluta og óíbúðarhæf. Það sér það hver maður hvert stefnir ef ekkert verður að gert.

Ég skora á komandi sveitarstjórn að vinna í þessum aðkallandi málum til að framtíðin verði björt og fögur.

 Ást og friður,

Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir