Fara í efni

Raufarhöfn í landafræðiappi!!

Nemendur í Hugbúnaðarverkfræði við HÍ búa til app í tengslum við verkefni við skólann.

Appið þeirra er eins konar landafræðiapp ætlað nemendum á fyrsta stigi grunnskóla. Í appinu er bæði hægt að lesa sér til um bæi á Íslandi og spila leik sem gengur út á að vita staðsetningu bæja og velja rétt á korti. Verkfræðinemarnir söfnuðu saman upplýsingum um bæi á landinu, en einnig höfðu þeir samband við bæjaryfirvöld víðs vega um landið og báðu um að krakkar á yngsta stigi grunnskóla sendu þeim upplýsingar um bæinn sinn. Krakkarnir áttu að skrifa stuttan texta um athyglisverða staði í heimabænum sínum, en þau áttu einnig að skrifa um það sem þeim finnst skemmtilegast að gera í þeim tilgangi að hvetja aðra krakka til að vilja heimsækja bæinn.

Nemendur í 2.-4. bekk Grunnskóla Raufarhafnar, þau Anna Fjóla, Agnar, Guðni og Nikola María, tóku þátt í verkefninu. Það sem þeim finnst vera athyglisverðast við Raufarhöfn er að það er nyrsta þorpið á Íslandi, og það stendur rétt við heimskautsbaug. Þau nefna líka risastórt útilistaverk, sem heitir Heimskautsgerði.

Krakkarnir segja að það sé margt skemmtilegt hægt að gera á Raufarhöfn. Á veturna er gaman að renna sér í Pallabrekku og að fara á skauta á tjörninni. Á sumrin er gaman að fara á gúmmíbáti út á tjörnina og að skoða fugla. Raufarhöfn er við sjóinn og það er gaman að leika sér í fjörunni, tína skeljar og að vaða í sjónum. Þau hafa gaman af að vera við höfnina og sjá þegar fiskinum er landað; stundum koma hákarlar með bátunum, og það er rosalega skemmtilegt.

Önnu Fjólu, Agnari, Guðna og Nikolu Maríu finnst líka mjög gaman í skólanum. Það eru fáir nemendur og þau leika sér öll saman í frímínútum og fara í margs konar leiki. Það eru líka mörg skemmtileg leiktæki á skólalóðinni, eins og aparólan og klifurtæki. 

Varðandi landafræðiappið, þá er vert að taka fram að það verður gefið út fyrir android síma; það mun verða frítt og laust við auglýsingar. Appið er hugsað til fræðslu og munu verkfræðinemarnir ekki hafa neinar tekjur af því.