Rif Rannsóknastöð
Rif Rannsóknastöð
Melrakkaslétta liggur norður undir heimsskautsbaug og er nyrsti hluti Íslands. Segja má að hún sé það landsvæði Íslands sem einna helst beri einkenni norðurheimsskautssvæða (norðurslóða) hvað náttúru og ásýnd varðar. Í því, ásamt góðu aðgengi að svæðinu, felast miklir framtíðarmöguleikar varðandi rannsóknir á lífríki norðlægra vistkerfa, sérstaklega með hliðsjón af áhrifum loftslagsbreytinga. Í því sambandi er vert að hafa í huga að sífellt aukin ásókn er í rannsóknir á norðurslóðum og fer rannsóknastöðvum þar ört fjölgandi. Það tengist m.a. hlýnun jarðar og beinum áhrifum þess á vistkerfi en talið er að áhrif hlýnunar séu hvergi eins hröð og einmitt á heimsskautasvæðum, m.a. vegna bráðnunar sífrera. Aukið aðgengi að norðurslóðum í kjölfar hlýnunar kallar á að einnig sé grannt fylgst með þeim óbeinum áhrifum hlýnunar sem aukin umsvif manna á svæðinu geta haft á viðkvæmt vistkerfi þess. Samfara hlýnun og bráðnun hafíss og jökla mun fylgja aukin ásókn í auðlindir norðurslóða og aukin umferð í tengslum við skipaflutninga. Hvað Melrakkasléttu og norðausturhorn Íslands varðar, má í þessu sambandi nefna hugmyndir um umskipunarhöfn á svæðinu og áætlanir um olíuvinnslu á svokölluðu Drekasvæði norðaustur af landinu.
Í tengslum við átaksverkefni á Raufarhöfn hefur síðasta árið verið unnið að framgangi ágætrar hugmyndar Þorkels Lindberg Þórarinssonar að stofna náttúrurannsóknastöð á Raufarhöfn og nýta þannig sérstöðu svæðisins. Rannsóknastöð á Raufarhöfn er ætlað að efla rannsóknastarf á Melrakkasléttu, m.a. með því að laða að bæði innlenda og erlenda vísindamenn til dvalar í stöðinni og rannsókna á svæðinu. Hugmyndinni hefur verið vel tekið, enda bjóða bæði innviðir á Raufarhöfn og náttúrufar Melrakkasléttu upp á mikla möguleika í rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum loftslagsbreytinga bæði beint og óbeint. Stefnt er að formlegri stofnun sjálfseignarstofnunar um stöðina á næstu vikum og hefur þegar verið staðfest að fagaðilar svo sem stofnanir er tengjast umhverfismálum og rannsóknum eru tilbúnar að skipa fulltrúa í stjórn, svo og Norðurþing. Fyrir liggur að stöðin mun fá inngöngu í INTERACT, net rannsóknastöðva á norðurslóðum. Horft er til samstarfs við Hreiðrið, gistiheimili á Raufarhöfn um aðstöðu og hentar það einkar vel fyrir unga stofnun að klekjast út í rúmgóðu og notalegu Hreiðrinu.
Verkefnið hefur hlotið styrki frá Vaxtarsamningi Norðausturlands, Byggðastofnun, Styrktarsjóði Eignarhaldsfélags Brunabótafélag Íslands (EBÍ) og notið stuðnings Norðurþings. Auk þess hefur starfsemin fengið úthlutað fé á fjárlögum fyrir árið 2014. Ber að þakka þessum aðilum velvilja þeirra. Náttúrustofa Norðausturlands hefur enn fremur lagt mikið af mörkum í vinnu við undirbúning verkefnisins og á starfsfólk hennar allan heiður skilið fyrir að vinna hugmyndinni ötullega.
Raufarhöfn, 16. apríl 2014
Kristján Þ. Halldórsson