Fara í efni

Ríkisstjórnarsveitastjórn


Ríkisstjórnarsveitastjórn


Á yfirstandandi kjörtímabili  hef ég setið í sveitarstjórn fyrir V-listann og, eins og flestir vita, í minnihluta ásamt Friðriki Sigurðssyni frá Þinglistanum. Við vorum þar tveir af því að Samfylkingin gekk til liðs við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn. Lengst af kjörtímabilinu var við völd í landinu ríkisstjórn Vinstri-Grænna og Samfylkingarinnar og það var ótrúlega oft sem það þurfti að gera athugasemdir við frumvörp sem sú ríkisstjórn lagði fram, í nafni sveitarfélagsins , þótt þau snertu ekki okkar svæði beint. Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, eru flest frumvörp og önnur mál sem frá henni koma bara lögð fram til kynningar.

Eins og svo margir muna, en ýmsir vilja gleyma, þá varð efnahagshrun á Íslandi eftir 17 ára frjálshyggjutilraun Sjálfstæðisflokksins, aðallega með liðsinni Framsóknar. Þá varð að skera niður hjá hinu opinbera bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Heilbrigðisstofnun Þingeyinga fór ekki varhluta af því að einn góðan veðurdag var ríkiskassinn tómur og settar voru fram hugmyndir um sameiningu hennar við aðrar heilbrigðisstofnanir. Þessu var mótmælt mjög harkalega því heilbrigðisþjónustu vill fólk hafa sem næst sér. Það var slegin skjaldborg um Sjúkrahúsið, Hvamm og Sýsluskrifstofuna og boðað til fundar í Íþróttahöllinni þar sem öllum þingmönnum kjördæmisins var boðið að koma. Í þessum mótmælum voru sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar og talað var um aðför að þingeysku samfélagi.

Einhverra hluta vegna urðu ekki eins kröftug mótmæli þegar núverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti á haustdögum að það ætti að sameina flestar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi frá Blöndósi til og Bakkafjarðar í eina sæng með tilheyrandi niðurskurði frá og með síðastliðnum áramótum. Þessu var síðan frestað fram á næsta haust af ríkisstjórninni enda líkast til óþægilegt að burðast með afleiðingarnar í gegnum sveitarstjórnarkosningar á þessu vori. Kannski óttast forvígismenn Norðurþings að Örlygur Hnefill eyðileggi aftur fyrir þeim mótmælafund með tillögu um að drífa upp álveri í landi Bakka við Húsavík. Ég efast um að það hefði bjargað Heilbrigðisstofnun Þingeyinga.

Hins vegar bendir flest til þess að hægrimeirihlutinn í Norðurþingi líti þannig á að það skipti nánast engu hvaða mál ríkisstjórn á hverjum tíma leggi fram heldur hvaða flokkar og hvaða stjórnmálamenn leggi þau fram. Að við það eitt að þeir fái „sína menn“ í ráðherrastólana breytist hvítt allt í einu svart, rangt verði rétt og vont í rauninni bara býsna gott – eða að minnsta kosti allt í lagi.

Viðhorf og vinnubrögð af þessu tagi munu aldrei verða til þess að fólk í sveitarstjórn setji samfélag okkar og íbúana raunverulega í fyrsta sæti. Þessu viljum við í V-listanum breyta og bjóðum fram nýtt fólk með nýjar hugmyndir um hvernig leggja má grunninn að góðum búsetuskilyrðum og bjartri framtíð fyrir fólk í Norðurþingi.

 

Trausti Aðalsteinsson sem skipar þriðja sæti á V-lista Vinstri Grænna og óháðra.