Sjómannadagurinn 2016 heppnaðist með eindæmum vel
Sjómannadagurinn á Raufarhöfn hefur verið haldinn hátíðlegur frá því að elstu menn muna. Það er sumt hefðbundið á Sjómannadeginum á Raufarhöfn ásamt því að fólkið þar er einstaklega duglegt að koma nýju að og brydda upp á einhverju skemmtilegu. Núorðið er hátíðin á laugardeginum og henni slúttað með heljarinnar balli á laugardagskvöldi.
Undanfarin ár hefur sjómannadagshelginni verið startað á föstudegi með hittingi gamalla Félaga eins og við Raufsar höfum verið kallaðir. Þá er yfirleitt Barsvar á milli árganna og í ár vann ´74 árgangurinn.
Laugardagurinn byrjaði á Kvennahlaupi og þar tóku um 30 manns þátt. Einnig var árgangamót í blaki en þar fór árgangurinn´69 með sigur af hólmi.
Síðar um daginn var farið í siglingu en veðrið lék við fólkið og var siglingin afar vel heppnuð. Var farið út á tveim bátum þar sem aðsókn var mikil. Þegar í land var komið fengu börnin prins póló og kók í dós. Þá var farið í koddslag þar sem Vigdís Reynisdóttir vann kvennaflokk en ekki var keppt til úrslita í karlaflokk. Svo var sjómann og þar vann Nanna Steina Höskuldsdóttir kvennaflokk en Guðmundur Úlfar Jónsson karlaflokk. Í verðlaun í sjómann er veglegur farandbikar enda er sjómann keppnin eitt af aðalatriðunum og fólk hvetur þar sitt fólk áfram af miklum móð.
Um kvöldið var kvöldverðarhlaðborð á hótel Norðurljós og þar komu saman um 40 manns í mat. Hljómsveitin Sífreri frá Raufarhöfn slúttaði svo deginum með þrusuballi í félagsheimilinu Hnitbjörgum.
Það sem er alveg sérstakt við sjómannadaginn á Raufarhöfn er að allir mæta sem ein fjölskylda. Oft mætir fólk og þá sérstaklega undanfarin ár, sem ekki eru mikið tengdir Raufarhöfn og eftir sjómannadaginn verður Raufarhöfn alltaf þeirra og fólk kemur aftur og aftur og vill helst ekki fara. Annað sem er alveg einstakt er að sólaruppkoman á Raufarhöfn er einstök og hafa fjölmörg ástarsambönd myndast við hana eftir gott sjómannaball. Það er ekki hægt að lýsa þessu í orðum nema þá kannski með því að segja að allt verður að gulli á Raufarhöfn svo mikilfengleg er náttúrufegurðin.
Eins og áður sagði þá hefur Björgunarsveitin Pólstjarnan séð um skemmtidagskránna að og leyst það verkefni vel undanfarin ár líkt og þau gerðu þetta árið.
Takk allir fyrir komuna, flottur dagur og flott helgi!