Fara í efni

Sorpmál í sveitarfélaginu Norðurþingi

Sorpmál í sveitarfélaginu Norðurþingi–       fáein orð um stórt verkefni

 Öll höfum við ákveðnar skyldur við umhverfi okkar og flest erum við nógu þroskuð til að vita hvers ætlast er til af okkur – en samt gerum við stundum eitthvað annað,  jafnvel stefnum við í þveröfuga átt til að sýna fram á að við látum ekki segja okkur fyrir verkum. Slíkt kemur óneitanlega upp í hugann þegar litið er á stöðu sorpmála í sveitarfélaginu okkar en samkvæmt lögum er sveitarstjórn skylt að marka stefnu í þessum málaflokki og framfylgja henni, þ.m.t. skipulag um meðferð, úrvinnslu og förgun sorps frá heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. Samt er það svo að þegar leitað er að þessari stefnu á vef Norðurþings þá segir undir liðnum Framkvæmdir og hafnir – Umhverfismál blátt áfram: „Ekki til nein formleg stefna. Óformleg stefnuskrá umhverfismála í Norðurþingi mótast t.a.m. af drögum og tillögum til nýs aðalskipulags.“ Í aðalskipulagi 2010-2030 finnst aðeins lítil vísbending í þessu efni í kafla 19.4: „Íbúar verði hvattir til að taka upp vistvænan lífsstíl. Hvatt verði til þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki.“ Svo mörg voru þau orð.

 Núverandi ástand er engum til sóma

 Um nokkurt skeið hefur Norðurþing átt samstarf við nágrannasveitarfélögin um sorphirðu og sorpförgun en það fyrirkomulag stendur ekki traustum fótum um þessar mundir. Eftir að brennslu var hætt í sorpeyðingarstöðinni er rusli mestmegnis ekið vestur í Húnavatnssýslu þar sem það er grafið í jörðina og vandamálið þannig geymt handa komandi kynslóðum. Þetta er líklega bæði dýrasta og dapurlegasta leiðin sem við getum farið á þessu sviði. Nær væri að við tileinkuðum okkur þá hugsun sem góðu heilli er aðeins farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, þ.e. að leggja áherslu á að minnka magnið og flokka rusl sem allra mest til endurvinnslu og endurnýtingar enda virðist þeim sorpflokkum sem breyta má í verðmæti heldur fjölga en hitt.

 Hver ber ábyrgðina?

 Við í V-listanum álítum góða umgengni við náttúruna og sjálfbæra nýtingu auðlindanna vera undirstöðu farsæls samfélags og þess vegna viljum við gera Norðurþing að fyrirmyndarsveitarfélagi í umhverfismálum. Lykilatriði í sjálfbærri þróun er að leitast við að mæta þörfum nútímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að gera slíkt hið sama. Það er erfitt að hugsa sér nokkuð jafn andstætt þessari hugsun eins og það að vöðla öllu okkar rusli saman, binda það í bagga og flytja langar leiðir á flutningabílum til að hola því niður í jörðina.

    En ábyrgðin er ekki eingöngu núverandi sveitarstjórnar þótt víst hefði mátt standa betur að þessum málum. Að mínu mati ber hver einstaklingur ábyrgð á sjálfbærri þróun samfélagsins með þátttöku sinni á heimilinu, á vinnustað, í sínu sveitarfélagi, sem þjóðfélagsþegn og íbúi á þessari jörð. Við höfum tækifæri til að sýna ábyrgð í verki. Við leggjum okkar að mörkum hvert og eitt, fyrst með því að móta eigin viðhorf, eigin lífsstíl. Við svörum því hvernig viljum við sinna umhverfi okkar.

 Marka þarf stefnu og framfylgja henni

 Við viljum að sveitarfélagið Norðurþing verði til fyrirmyndar í umhverfismálum. Það er verkefni sveitarstjórnar á hverjum tíma að framfylgja áætlunum í umhverfismálum í samstarfi við stjórnvöld landsins og íbúa sveitarfélagsins. V-listinn er reiðubúinn að taka frumkvæði í þessum mikilvæga málaflokki með stuðningi íbúanna í komandi kosningum.

 Þórhildur Sigurðardóttir

Höfundur skipar 17. sæti V-lista VG og óháðra til sveitarstjórnarkosninga í Norðurþingi.