Fara í efni

Starf verkefnisstjóra í samstarfsverkefni um byggðaþróun á Raufarhöfn framlengt

Ákveðið hefur verið að framlengja ráðningartímabil verkefnisstjóra Byggðastofnunar í samstarfsverkefni um byggðaþróun á Raufarhöfn um fjóra mánuði, það er til 30. júní n.k.Verkefnið á Raufarhöfn er samstarfsverkefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Byggðastofnunar, Háskólans á Akureyri, Norðurþings og íbúa Raufarhafnar, um að styrkja grundvöll byggðarlagsins.  Verkefnið er jafnframt fyrst verkefna á landsvísu sem falla undir “ Brothættar byggðir“.  Með verkefninu er leitast við að virkja fjölmarga aðila til samstarfs og nýta þannig margvíslegar bjargir ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila byggðarlögunum til framdráttar. Vonir standa til þess að með þessari aðferðafræði megi stuðla að eflingu þeirra byggðarlaga sem helst standa höllum fæti á Íslandi og bregðast með markvissum hætti við byggðavanda sem skapast í framtíðinni.

Kristján Þ. Halldórsson, verkefnisstjóri á Raufarhöfn, hefur undanfarið ár leitast við að aðstoða íbúana og aðra hagsmunaaðila við verkefni af ýmsu tagi, allt frá sjávarútvegi og ferðaþjónustu til menningar- og menntunarmála.  Nauðsynlegt er að fylgja nokkrum þessara verkefna og/eða hugsanlegum nýjum verkefnum betur eftir á næstu mánuðum og því hefur nú verið ákveðið að framlengja ráðningartímabilið sem fyrr segir.