Fara í efni

Starfsumhverfi grunnskóla

Ég hef búið á Húsavík síðan áramótin 1991-92 og við hjónin höfum alið upp okkar 2 börn hér í bæ. Þau voru bæði í Borgarhólsskóla alla sína grunnskólagöngu og hef ég ekkert nema gott um þann skóla og starfsfólk að segja. Nú hef ég sjálf verið starfsmaður skólans síðan í byrjun janúar 2009 og ég get líka farið góðum orðum um skólann og mitt samstarfsfólk frá því sjónarhorni.

En ein af grunn stoðum samfélagsins sem við búum í er góður grunnskóli, faglegt og gott starf er unnið í Borgarhólsskóla á Húsavík sem og í öðrum grunnskólum sveitarfélagsins. Borgarhóls-skóli er 68 manna vinnustaður og nemendur eru 293 talsins, skólinn er vel mannaður góðu fag-lærðu starfsfólki sem leggur sig fram í sínu starfi. Endurmenntun starfsfólks er stöðugt í gangi með einum eða öðrum hætti. Gott starfsumhverfi skilar sér í vellíðan á vinnustað bæði fyrir starfsfólk og nemendur, ef starfsumhverfi er ekki gott til lengri tíma kemur það niður á starfinu og jafnvel námsárangri nemenda.

En hvað er gott starfsumhverfi? Sagt er að til að skapa gott starfsumhverfi þurfi margir þættir að koma saman í eina heild og ætla ég aðeins að koma hér inn á veraldlegu hlutina sem eiga sinn þátt í að skapa starfsumhverfið okkar. Þessir þættir sem hafa áhrif eru til dæmis: húsnæði, húsbúnaður, lýsing og vinnufyrirkomulag, ásamt þeim tækjum og tólum sem þarf. Í kjölfar efnahagshrunsins  hafa ýmsar hagræðingar verið  gerðar sem hafa komið við allt starfsfólk  innan Borgarhólsskóla. Þessar hagræðingar og nægjusemi hafa verið stór hluti í skólastarfinu síðustu árin, þótt reynt hafi verið eftir fremsta megni að láta þær sem minnst koma við faglega þjónustu við nemendur. Starfsfólk og nemendur hafa verið þolinmóð og öll af vilja gerð til að láta hlutina ganga upp miðað við þær aðstæður sem hafa verið. Hinsvegar er svo komið núna að margir af þessum þáttum sem nauðsynlegir eru í skólastarfseminni eru komnir á tíma og rétt rúmlega það, þessir hlutir þarfnast endurnýjunar með það að markmiði að geta boðið nemendum og starfsfólki gott starfsumhverfi. Eitt af markmiðum okkar er jú að skila nemendum okkar sem sjálfstæðum og sterkum einstaklinum út í lífið, hvort sem haldið er áfram í nám eða á vinnumarkaðinn.

Áðurnefndum hlutum í  starfsumhverfinu þarf að fara að huga að fyrir alvöru, setja niður áætlanir og fara markvisst í endurnýjun og úrbætur. Það er á okkar ábyrgð að bjóða börnunum okkar upp á gott umhverfi til náms alveg frá upphafi skólagöngu og því ættum við að leggja metnað í að endurbæta og uppfæra það annars góða umhverfi sem við höfum. Setjum X við S.

Berglind Pétursdóttir viðskiptafræðingur skipar 5.sætið á S-lista, Samfylkingin og annað félagshyggjufjólk