Fara í efni

Strákurinn okkar kominn til Sochi!

Leiðin til Sochi – strákurinn okkar

Strákurinn okkar, Jóhann Þór Hólmgrímsson, er kominn til Sochi, sem og Erna Friðriksdóttir. Íslensku Ólympíufararnir flugu frá Denver í Bandaríkjunum, þar sem þau voru við æfingar. Þau flugu í gegnum Frankfurt í Þýskalandi og Istanbul í Tyrklandi á leið sinni til Sochi.

Við komuna fara þau beint í Ólympíuþorpið, en íslenski hópurinn er staðsettur í fjallaþorpinu á Krasnaya Polyana svæðinu í fjöllunum ofan við Sochi-borg. Sochi er við strönd Svartahafs. Nokkur Ólympíuþorp eru á svæðinu, staðsett sem næst keppnissvæðum viðkomandi keppenda.

Liðin eru boðin formlega velkomin í þorpin með móttökuathöfn með fánahyllingum og skemmtiatriðum. Fulltrúar landanna og borgarstjórar þorpanna skiptast á gjöfum, en hvert þorp hefur sinn eigin borgarstjóra.

Auk keppendanna tveggja og þjálfara þeirra eru tveir aðstoðarþjálfarar með í för í Sochi, sem og aðalfararstjóri frá Íþróttasambandi fatlaðra.

Fjölskylda Jóhanns verður komin til Sochi fyrir opnunarhátíðina, sem er að kvöldi 7. mars í Fisht Olympic Stadium klukkan 20:00 að staðartíma, kl. 16:00 að íslenskum tíma. Eftir opnunarhátíðina hittir fjölskylda Jóhanns íslenska hópinn.

Jóhann keppir í alpagreinum (Alpine Skiing); svigi og stórsvigi.

Fyrri keppnisdagur Jóhanns er svig karla. Jóhann keppir í svigi (Men‘s Slalom) þann 13. mars.

Fyrri ferðin í svigi karla hefst kl. 16:00, eða kl. 12:00 að íslenskum tíma. Ekki er enn vitað hvar hann verður í röðinni. Ef Jóhann klárar brautina í fyrri ferðinni, þá er seinni ferðin kl. 19:00 að staðartíma; kl. 15:00 að íslenskum tíma.

Seinni keppnisdagurinn er laugardagurinn 15. mars. Þá er keppt í stórsvigi karla (Men‘s giant Slalom).

Keppni hefst kl. 09:30, eða kl. 05:30 að íslenskum tíma; spurning hvort íslenskir áhorfendur vakni snemma, ferskir og kátir, eða vaki þar til keppnin hefst! Ef Jóhann fer niður brautina í fyrri ferðinni, þá hefst seinni ferð kl. 13:00, eða 09:00 að íslenskum tíma.

Nákvæm tímasetning einstakra keppenda er yfirleitt birt kvöldið fyrir keppni.

Erna Friðriksdóttir frá Egilstöðum keppir í sömu greinum og Jóhann; svigi og stórsvigi. Hún keppir í svigi kvenna þann 14. mars, og hefst keppni kl. 16:00, eða 12:00 að íslenskum tíma; seinni umferð hefst síðar þennan sama dag. Hún keppir í stórsvigi kvenna þann 16. mars; sú keppni hefst snemma að íslenskum tíma eins og hjá körlunum, eða kl. 05:30; 09:30 að staðartíma. Seinni umferð hefst um kl. 13:00, eða 09:00 að okkar tíma.

Við hvetjum alla til að fylgjast með keppendunum tveimur frá Íslandi; Áfram Ísland!!

Lokahátíð leikanna er 16. mars kl. 20:00, kl.16:00 að íslenskum tíma, í glæsihöllinni Fisht Olympic Stadium.

 Meðfylgjandi er slóðin að Olympíuleikum fatlaðra; þar er allt að finna um leikana, keppnisdaga, greinar og dagsetningar:

http://www.sochi2014.com/en/paralympic

 Jóhann er með facebook síðu: Leiðin til Sochi-Jóhann Þór Hólmgrímsson 

Mottó Jóhanns Þórs er: What doesn't kill you makes you stronger.

Markmið: Komast niður brekkuna í Sochi; hratt, örugglega og slysalaust J