Fara í efni

Ung hjón flytja til Raufarhafnar

Ung hjón flytja til Raufarhafnar

Þau Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir og Gunnar Páll Baldursson, kallaður Gunni Palli, ákváðu í lok árs 2013 að flytja til Raufarhafnar; eða heim á Ríben, eins og Gunni Palli hafði talað um alveg frá því þau kynntust fyrst. Þau fluttu því „heim“ með sextán mánaða dóttur sína í byrjun árs 2014.

Gunnar Páll Baldursson er uppalinn á Raufarhöfn. Foreldrar hans eru Baldur Hólmsteinsson og Sigrún Guðnadóttir frá Búrfelli; óðalsbændur á Grjótnesi til margra ára. Gunni Palli á sex systkini, fimm þeirra búa á víð og dreif um landið, en bróðir hans, Björn, býr á Raufarhöfn ásamt fjölskyldu sinni.

Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir er uppalin í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar eru Sigurður Oddur Pétursson og Bergdís Lína Jóhannsdóttir; nýhætt búskap á Búlandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Foreldrar Ingibjargar vildu reyna eitthvað alveg nýtt eftir að þau hættu búskap og ákváðu að flytja til Raufarhafnar. Ingibjörg á þrjú systkini sem, líkt og systkini Gunna Palla, eru búsett víða um land, en einn bróðir Ingibjargar tók við búi á Búlandi af foreldrum sínum.

Ingibjörg og Gunni Palli eiga eina dóttur, Sigrúnu Helgu, og hundinn Snoppu.

Gunni Palli fékk vinnu hjá Norðurþingi sem hafnarvörður og Ingibjörg vinnur á leikskólanum Krílabæ.

Þau hjónin ákváðu einnig að taka við rekstri á Félagsheimilinu Hnitbjörgum og Félaganum Bar. Þau stóðu í ströngu við endurbætur og viðhald í nokkurn tíma, en Félaginn Bar opnaði fyrst þann 1. febrúar.

Síðan þá hafa þau Ingibjörg og Gunni Palli haldið nokkur spilakvöld; þau buðu uppá konudagskaffi á konudaginn og snyrtivörukynningu, svo eitthvað sé nefnt. Þau segja að bæjarbúar hafi tekið þeim með eindæmum vel og eru allir ánægðir með framtakssemi þeirra hjóna.

Þau stefna á að gera eitthvað skemmtilegt í Hnitbjörgum í hverjum mánuði. Á Raufarhöfn var mikil Brids menning fyrir nokkrum árum og hafa þau hug á að endurvekja þá menningu og fá bæjarbúa til að rifja upp Brids taktana. Svo eru uppi hugmyndir um búningakvöld, bar-svar, og þema-kvöld, svo eitthvað sé nefnt.

Ingibjörg og Gunni Palli eru stútfull af skemmtilegum hugmyndum, en segja allar uppástungur og hugmyndir frá bæjarbúum vel þegnar!

Þau segja að það að flytja til Raufarhafnar hafi verið eins og að flytjast inn á stóra fjölskyldu. Hér sé gríðarlegt frelsi og mikið um aðgengilegar náttúruperlur, og enda viðtalið á orðunum „hér vil ég vera, hér á ég heima...“.

Þau halda úti Facebook síðunni „Félaginn Bar – þar sem hlutirnir gerast“.

Lesendur geta séð myndir af Félagsheimilinu og af viðburðum sem þar hafa verið haldnir í myndaalbúminu „Hnitbjörg“.