Útsýnispallur við Tjarnarleitisrétt
Ferðaþjónustusamtökin Norðurhjari hafa undanfarið misseri unnið að svokölluðu áfangastaðaverkefni á starfssvæði sínu, sem er frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð.
Stærsta framkvæmdin innan verkefnissins var smíði útsýnispalls við Skjálftavatn í Kelduhverfi, en þar er góð aðstaða til fuglaskoðunar og gott útsýni.
Arnhildur Pálmadóttir í Hönnunarverksmiðjunni á Húsavík hannaði pallinn, en Jón Kristján Ólason hjá Trémáli á Kópaskeri smíðaði. Var smíðinni lokið fyrir sumarsólstöður og pallurinn hafður til sýnis á sólstöðuhátíð á Kópaskeri, þar sem fulltrúar Norðurhjara fræddu gesti um tilurð pallsins og frekari hugmyndir.
Næsta skref er að setja upp fræðsluskilti við pallinn, annars vegar um frá Skjálftasetrinu á Kópaskeri um vatnið, jarðfræði og lífríki þess, hinsvegar fuglaskilti frá Fuglastíg á Norðausturlandi.
Fólk er hvatt til að nýta sér þennan fallega pall til að njóta útsýnis, hafa með sér kaffi og kíki til að skoða fugla, iðka jóga eða hvað annað sem hugurinn býður, í friði og ró og fallegu umhverfi. Pallurinn stendur við Tjarnarleitisrétt.