Vilji er allt sem þarf!
Þegar ég var nýkominn hingað til Húsavíkur (sem upphaflega átti að vera eitt sumar) var ég spurður að því hvort ég gæti hugsað mér að setjast hér að. Ég sagðist alveg geta hugsað mér það, ef ég fengi einhverja vinnu við hæfi. Viðmælandi minn sagðist líta svo á að ákvörðuninni um að búa á Húsavík kæmi fyrst. Líklegt væri að vinnan yrði svo númer tvö.
Þremur árum síðar er ég því miður farinn að hallast að þeirri skoðun að þessi ágæti maður hafi haft rétt fyrir sér. Atvinnumálin hafa átt undir högg að sækja í okkar sveitarfélagi. Afleiðing af því er viðvarandi fólksfækkun undanfarin ár. Ef skoðaðar eru íbúatölur í sveitarfélaginu er sjáanlegt að það er óvenju lítið af fólki frá 20-35 ára. En hvað getum við gert til að sporna við þessari þróun ?
Eins og við vitum hefur mikið gengið á vegna uppbyggingar á Bakka. Horfið var frá upphaflegum áformum um risaverksmiðju Alcoa og mun hógværari og skynsamari leið var valinn. En þangað til störfum fer að fjölga og hjólin að snúast er það okkar að nýta fyrirhuguð atvinnuáform sem meðbyr. Mikilvægt er að standa vörð um þá fjölbreyttu starfsemi og sjá þau tækifæri sem hér eru. Hugarfarið skiptir máli og stundum renna tækifærin hjá, án þess að okkur takist að nýta þau. Þetta á ekki síst við um alla nýsköpun. Ekki trúðu allir á hvalaskoðun á Skjálfanda fyrir nokkrum árum. Eða allan landamæralausa iðnaðinn sem fylgir tölvuleikjunum ? Jákvætt hugarfar er oft lykill og lausn að mörgu.
Þá komum við að okkar mikilvægustu auðlind. Íbúunum. Án fólksins erum við auðnin ein.
Okkar helsta ógn er fólksfækkun og í því tilfelli má spyrja sig hvort kemur á undan eggið eða hænan ? Horfir fólk
eingöngu á atvinnumál þegar það velur sér búsetustað eða eru ef til vill aðrir þættir sem vega jafn þungt ?
Ég vil líta svo á að fleiri en ég leggi málin þannig á borðið að fyrst komi ákvörðunin um að búa í
sveitarfélaginu og atvinnumálin komi þar við hlið inn í jöfnuna.
Vert er þó að taka fram að vissulega er það þannig að ef engin atvinna býðst þá getur það verið úrslitakostur
að flytjast búferlum eins og nýleg dæmi sýna okkur.Ég er þó þeirrar skoðunar að
það sé mögulegt að skapa samfélag sem heldur fast í sína íbúa með öflugri fjölskyldustefnu. Við höfum
fjöldamörg tækifæri innan seilingar. Innan sveitarfélagsins eru tiltölulega fá íþróttafélög sem á að auðvelda
samstarf og samvinnu. Við höfum öll skólastig innan sveitarfélagsins og ættum að geta myndað heildstæða skólastefnu sem tengir leik-grunn og
framhaldsskóla saman
Með því að skipa fjölskyldumálum þann sess sem þau eiga skilið getum við laðað fólk til sveitarfélagsins og með nýju fólki koma ný tækifæri. Er ekki sannleikskorn í hinu fornkveðna : „vilji er allt sem þarf“ ?
Kjartan Páll Þórarinsson , skipar 2. sæti á lista
Samfylkingarinnar og annars félagshyggjufólks Í Norðurþingi