Áhugaverðir staðir
Heimskautsgerði
Heimskautsgerðið sem nú rís við Raufarhöfn er einstakt og fegurðin þar í kring ekki síðri. Gerðið mun virkja miðnætursólina við heimskautsbaug og er það stórkostleg sjón að sjá ljósið leika við steinana. Heimskautsgerðið er 52 metrar í þvermál og er hæsti punktur átta metra hár. Í miðjunni verður átta metra á súla með kristaltoppi sem varpar geislum sólar um Heimskautsgerðið. Bygging gerðisins hófst árið 2008.
Hugmyndin að Heimskautsgerðinu er byggð á goðsögulegum hugarheimi og dvergatala Völuspár. Innan þess verður dvergastígur með nöfnum 72 dverga sem mynda árhing þar sem hver dvergur ræður fimm dögum. Dvergunum hefur verið gefið hlutverk og þeir persónugerðir, þannig að allir geta fundið sinn afmælisdverg og mun þannig færa fornan sagnaheim til nútímans. Hlutverk dverganna í Völuspá er óþekkt, nema Austra, Vestra, Norðra og Suðra, sem halda uppi himninum.
Árhringur dverganna verður því almanak þar sem hver dvergur ræður fimm dögum. Innan hringsins verða steinar fyrir alla dvergana sem mynda dvergastíg og innan hans er bendir sem vísar á pólstjörnuna. Þar verður einnig hásæti sólar, geislasalur og altari elds og vatns.
Heimskautsgerðið er 50 km frá Kópaskeri, 54 km frá Þórhöfn og 154 km frá Húsavík. Hér má sjá leiðina og heimasíða Gerðisins, http://www.arctichenge.com/
Ásbyrgi
Ásbyrgi er stórkostleg náttúrusmíð með allt að 100 m háum hamraþiljum, sem hækka eftir því, sem innar kemur í gljúfrið. Innst er Botnstjörn með mikilli grósku allt um kring. Ásbyrgi er 3,5 km langt og um 1,1 km breitt. Í miðju þess er standberg, Eyjan, sem er allt að 250 m breið. Byrgið er skógi vaxið, einkum birki og víðir auk reynis og nokkur þúsund barrtré voru gróðursett þar og dafna vel. Fýllinn verpir í þvernhníptum hömrunum en aðrir fuglar í trjáreitum og móum.
Talið er að Ásbyrgi hafi myndast við að minnsta kosti tvö hamfarahlaup úr norðanverðum Vatnajökli, annað fyrir 8-10 þúsund árum en hið síðara fyrir u.þ.b. 3 þúsund árum. Síðan hefur Jökulsá fært sig til austurs. Þjóðsagan segir að hinn áttfætti hestur Óðins, Sleipnir, hafi stigið þar niður fæti þegar goðið var á yfirreið. Ásbyrgi er í eigu Skógræktar ríkisins, en er innan þjóðgarðsins og í umsjá hans.
Nánar um Ásbyrgi og Vatnajökulsþjóðgarð, http://www.vatnajokulsthjodgardur.is/
Kaldbakstjarnir - gullfiskatjörn
Skammt sunnan Húsavíkur, nærri þjóðvegi, eru fjórar tjarnir sem sameiginlega eru kallaðar Kaldbakstjarnir.
Langstærst þeirra er Svarðarmýrartjörn sem blasir við af þjóðveginum, sjávarmegin. Austan þjóðvegar er hinsvegar Yltjörn sem er næst stærst tjarnanna. Hinar tjarnirnar tvær eru litlar og ekki sýnilegar frá vegi.
Tjarnirnar urðu til árin 2000 og 2001 í tengslum við rafmagnsframleiðslu í lítilli virkjun í Hrísmóum þegar volgu og heitu vatni var veitt í dalverpið þar sem nú er Yltjörn. Í Yltjörn rennur umtalsvert magn af heitu vatni og er hún því ávallt volg. Yltjörn er ekki hvað síst þekkt fyrir að í henni er sjálfbær stofn gullfiska sem þar hefur lifað til margra ára. Þar er vinsælt að stunda böð og gullfiskaveiðar á góðviðrisdögum.
Talsvert er af silungum í Svarðarmýrartjörn og þar er einnig sérlega ríkulegt fuglalíf. Þar hafa sést yfir 90 tegundir fugla í gegn um árin. Ýmsar áhugaverðar gönguleiðir er að finna umhverfis tjarnirnar.
Skrúðgarðurinn
Skrúðgarðurinn á Húsavík liggur upp með Búðará en áin rennur úr Botnsvatni ofan við bæinn og er farvegur hennar samhliða Ásgarðsvegi niður að Garðarsbraut en þar er henni beint í stokk undir aðalgötu bæjarins og niður til sjávar.
Lengi höfðu verið uppi hugmyndir um skrúðgarð og upphaflega var honum ætlaður staður við hlið Húsavíkurkirkju. Það var ekki fyrr en árið 1975 að Kvenfélag Húsavíkur beitti sér fyrir stofnun Skrúðgarðsins á núverandi stað og var þetta gert í tilefni af 80 ára afmæli félagsins.
Reynir Vilhjálmsson skipulagsarkitekt Húsavíkurbæjar teiknaði garðinn og gaf Kvenfélagið fyrstu plönturnar og sá um gróðursetningu á þeim. Plönturnar voru valdar af Reyni í samráði við Sigurð Blöndal skógarvörð á Hallormsstað.
Næstu ár unnu kvenfélagskonur ásamt fleirum í góðu samstarfi við garðyrkjumann Húsavíkurbæjar við gróðursetningu og stígagerð. Kvenfélagið skilaði garðinum af sér til Húsavíkurbæjar 1985 og gaf um leið listaverkið Dans eftir Sigrúnu Guðmundsdóttur.
Húsið Kvíabekkur stendur í garðinum við Reykjaheiðarveg og var það fyst leigt og síðan keypt og átti að nota það sem aðstöðuhús fyrir starfsmenn í garðinum. Húsið hefur nú verið gert upp og torfbærinn endurgerður á grunni vegghleðslna.
Búðarárfoss fellur neðarlega í ánni þar sem manngert uppistöðulón er neðst í ánni. Stífla þessi var gerð árið 1916 þegar fyrsta rafstöð Húsavíkinga var reist en hún gaf af sér 50 kílóvött.
Kópaskersviti
Vitinn var reistur árið 1945 og er hannaður af Axel Sveinssyni og er 14 metra hár. Kópaskersviti var ekki tekinn í notkun fyrr en árið 1951 vegna erfiðleika við öflun ljóstækja. Vitanum svipar til Miðfjarðarskersvita frá árinu 1939 og Kögurvita frá árinu 1945, en Kópaskersviti er þó mun hærri.
Vitinn stendur á Grímshafnartanga, norðan Kópaskers og er steinsteyptur, ferstrendur turn á lágum og breiðum stalli. Vitinn er 2,2 metrar á breidd, 3,2 metrar á lengd og 10,6 metra hár, auk 3,4 metra hás ljóshúss.
Ljóshúsið sænskt af gerð með veggjum úr járnsteypu og eirþaki, var sett á vitann árið 1951. Vitinn var þá útbúinn með 210° díoptrískri 500 mm linsu og gasljóstækjum.
Veggir vitans voru upphaflega húðaðir ljósu kvarsi og lóðréttu böndin með hrafntinnu, en síðar var vitinn málaður hvítur og svartur en ljóshúsið rautt.
Staðir austan Húsavíkur sem vert er að skoða:
- Grettisbæli
- Presthólalón (Dansinn og Hallveigarlundur )
- Valþjófsstaðafjara
- Kollufjall
- Snartarstaðanúpur
- Rauðinúpur
- Hvalvík / Hestfall (norðan Snartarstaðanúps)
- Akurgerði, skógrækt
- Skjálftavatn
- Forvöð
- Gloppa (í Jökulsárgljúfrum að austan)
- Hrauntangi á Öxarfjarðarheiði
- Kópaskersmisgengið
- Snartarstaðaborg