Húsavík
Sveitarfélagið Húsavíkurbær varð til árið 2002 við sameiningu Húsavíkurkaupstaðar og Reykjahrepps og nær norðan frá Reyðará á Tjörnesi, við austanverðan Skjálfandaflóa, suður í Reykjahverfi.
Íbúafjöldi í hinu sameinaða sveitarfélagi 1. desember 2002 var 2.484. Aðalatvinnuvegir eru sjósókn, fiskverkun, ýmis opinber þjónusta, margskonar þjónustuiðnaður, landbúnaður og þjónusta við ferðamenn.
Nú tilheyrir Húsavík sveitarfélaginu Norðurþingi sem varð til árið 2006 við sameiningu fjögurra sveitarfélaga, Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps. Íbúafjöldi á Húsavík árið 2010 var 2.229.
Örnefnið Húsavík er talið vera eitt hið elsta á Íslandi. Í Landnámabók (Sturlubók) segir frá Garðari Svavarssyni, sænskum víkingi, sem sigldi til landsins og umhverfis það og uppgötvaði að það var eyja. Nefndi hann landið Garðarshólma. Garðar hafði vetursetu á Húsavík, byggði sér hús og af því er nafnið talið dregið. Þegar Garðar sigldi burt, vorið eftir, sleit frá honum bát sem á voru maður nefndur Náttfari, ásamt þræl og ambátt. Þingeyingar hafa löngum litið á Náttfara sem fyrsta landnámsmanninn og því fögnuðu þeir 11 alda afmæli Íslandsbyggðar árið 1970, fjórum árum fyrr en flestir aðrir landsmenn.
Gamli Húsavíkurhreppur, á 19. öld, samanstóð af þeim sveitarfélögum sem seinna urðu Tjörneshreppur, Reykjahreppur og Húsavíkurhreppur, en það var árið 1912 sem kauptúnið var gert að sérstökum hreppi. Kaupstaðarréttindi hlaut Húsavík 1. janúar 1950.
Húsavík varð snemma kirkjustaður og kirkja talin hafa verið reist þegar á 12. öld. Húsavíkurkirkja sem nú stendur, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt, var vígð sumarið 1907 og rúmaði þá flesta þorpsbúa. Kirkjan stendur miðsvæðis og er fallegt og virðulegt tákn fyrir bæinn.
Jarðhiti er mikill í landi Húsavíkur og næsta nágrenni og ýmsir framtíðarmöguleikar fólgnir í nýtingu hans. Jarðhiti hefur þó lengi verið nýttur m.a. til ylræktar á grænmeti og blómplöntum í gróðurhúsum á Hveravöllum í Reykjahverfi en þaðan var einnig lögð hitaveita til Húsavík árið 1970. Yfirhiti á vatni úr Reykjahverfi er notaður til rafmagnsframleiðslu í orkustöð á Kaldbaksleiti sem tekin var í notkun í júlí árið 2000.
Mikil og ört vaxandi þjónusta er við ferðamenn sem koma margir í tengslum við hvalaskoðunarferðir á Skjalfandaflóa, en Húsavík er þekkt, utan- og innanlands, sem miðstöð hvalaskoðunar. Hvalasafnið á Húsavík er á hafnarsvæðinu og býður upp á athyglisverða sýningu um hvali sem dregið hefur að fjölda ferðamanna.
Safnahúsið á Húsavík er menningarmiðstöð Þingeyinga, sem hýsir hluta af Byggðasafni Suður-Þingeyinga, sjóminjasafn, sem var opnað árið 2002, náttúrugripasafn, héraðsskjalasafn, ljósamyndasafn og myndlistarsafn. Í húsinu er sýningarsalur þar sem myndlistamenn sýna verk sín. Þar er einnig til húsa Bókasafnið á Húsavík sem býður fjölþætta þjónustu, m.a. aðgang að Internetinu.
Á Húsavík eru reknar ýmsar almennar þjónustustofnanir svo sem: Leikskólinn Grænuvellir, Borgarhólsskóli, Framhaldsskólinn á Húsavík, Þekkingarnet Þingeyinga, Sundlaug Húsavíkur og Íþróttahöllin. Íþróttafélagið Völsungur gegnir veigamiklu hlutverki í skipulagi og uppbyggingu íþróttastarfs fyrir íþróttaiðkendur í bænum. Sunnan Húsavíkur er skemmtilegur golfvöllur sem Golfklúbbur Húsavíkur heldur úti.
Menningarlíf hefur lengi verið blómlegt á Húsavík og í sýslunni allri. Leikfélag Húsavíkur stendur í fremstu röð áhugaleikfélaga í landinu.
Tónlistarlíf er fjölbreytt, tónleikahald, kórar og hljómsveitir krydda menningarlífið. Tónlistarskólinn starfar í nánum tengslum við grunnskólann og er aðsókn að skólanum mjög góð.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands er með starfsstöð á Húsavík. Þrjú meginsvið eru í starfseminni: Heilsugæsla í Suður-Þingeyjarsýslu, Heilsugæsla í Norður-Þingeyjarsýslu og Sjúkrahús á Húsavík.
Skammt fyrir ofan Húsavík er Botnsvatn. Þangað sækir fólk til að njóta útivistar, en góð gönguleið liggur kringum vatnið. Þar er hægt að renna fyrir silung án endurgjalds. Úr Botnsvatni rennur Búðará í gegnum Húsavík miðja. Við ána hefur verið ræktaður fallegur skrúðgarður. Mikið hefur verið gróðursett af trjáplöntum í bæjarlandinu síðustu áratugi.
Húsavíkurfjall er 417 metra hátt. Þangað liggur akvegur og á toppnum er hringsjá sem sýnir nöfn fjalla og fjarlægðir til þeirra.