Farsældarþjónusta
Farsældarþjónusta
Þann 1. janúar 2022 tóku í gildi ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmið laganna er að sjá til þess að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að þeirri þjónustu sem þau þurfa og að þau fái rétta aðstoð á réttum tíma, frá réttum aðilum. Með því að tengja þjónustuna saman og vinna í sameiningu að farsæld barna verður auðveldara fyrir börn og foreldra að fá aðstoð við hæfi.
Börn og foreldrar þeirra hafa aðgang að tengilið í heilsugæslu, skóla eða félagsþjónustu. Þar geta þau fengið aðstoð við að sækja viðeigandi þjónustu, án hindrana, á öllum þjónustustigum. Í flóknari málum hafa börn og foreldrar aðgang að málstjóra hjá félagsþjónustu eða þar sem þarfir barns liggja hverju sinni.
Starfsfólki sem vinnur með og fyrir börn ber að vinna saman að farsæld þeirra. Starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu, íþrótta, tómstunda eða heilbrigðisþjónustu hefur fengið aukna ábyrgð sem felur í sér að koma auga á aðstæður barna og bregðast við strax og þörf er á.
Hér er um að ræða boð um samþættingu þjónustu fyrir foreldra og börn sé þess óskað. Samþætting kemur ekki í veg fyrir að foreldrar sæki sjálfir þjónustu fyrir börn sín. Tilgangur farsældarlaganna er að börn og fjölskyldur falli ekki á milli kerfa og séu ekki send á milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Börn eiga rétt á að segja sína skoðun um þau málefni sem hafa áhrif á líf þeirra og þau sem veita þjónustu eiga að taka tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Stigskipting þjónustu:
1. stig – grunnþjónusta og snemmtækur stuðningur.
Fyrsta stigið skiptist í tvö undirstig, grunnþjónustu og fyrsta stigs þjónustu. Grunnþjónusta er aðgengileg öllum börnum og foreldrum. Fyrsta stigs þjónustu tilheyrir einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur sem hefur það að markmiði að styðja við farsæld barns. Hér er um að ræða þjónustu umfram grunnþjónustu. Það er stuðningur við börn sem glíma við vægan vanda og stuðningsaðgerðir sem koma í veg fyrir að vandinn aukist og vaxi.
2. stig – markvissari stuðningur.
Öðru stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn markvissari stuðningur með það að markmiði að tryggja farsæld barns. Markvissari stuðningur er veittur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns, úrræðin eru sérhæfðari og þjónustan fjölbreyttari. Leitast skal við að veita markvissari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.
3. stig – sérhæfðari stuðningur.
Þriðja stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem er veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur með það að markmiði að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Sérhæfðari stuðningur er veittur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns sem hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.
Tengiliðir:
Tengiliður skal vera aðgengilegur öllum börnum og foreldrum og hefur hann viðeigandi þekkingu til að vera innan handar og aðstoða við að sækja viðeigandi þjónustu við hæfi. Á meðgöngu og á ungbarnaskeiði er tengiliður barns starfsmaður heilsugæslu, t.d. ljósmóðir eða hjúkrunarfræðingur í ungbarnavernd. Þegar barn hefur leikskólagöngu er tengiliðurinn í leikskóla barnsins, t.d. deildarstjóri eða sérkennslustjóri. Þegar barn hefur grunnskólagöngu er tengiliðurinn starfsmaður grunnskólans, t.d. námsráðgjafi, deildarstjóri, þroskaþjálfi eða annar starfsmaður í nærumhverfi barnsins. Ungmenni í framhaldsskólum hafa aðgang að tengilið innan framhaldsskólans, t.d. námsráðgjafa. Ungmenni sem ekki fara í framhaldsskóla eða börn sem á einhvern hátt falla á milli ofangreindra þjónustukerfa hafa aðgang að tengilið hjá félagsþjónustu sveitarfélags.
Tengiliður ungbarnaverndar á HSN er Hulda Þórey Garðarsdóttir ljósmóðir hulda.thorey.gardarsdottir@hsn.is og Guðný Steingrímsdóttir félagsráðgjafi gudny.steingrimsdottir@hsn.is
Tengiliður Grænuvalla er Guðrún Eiríksdóttir (Gúlla) sérkennslustjóri gudrune@graenuvellir.is
Tengiliður Grunnskóla og leikskóladeildar Öxarfjarðarskóla er Hrund Ásgeirsdóttir skólastjóri hrund@oxafjardarskoli.is
Tengiliður Grunnskóla Raufarhafnar er Arndís J. Harðardóttir arndis@raufarhafnarskoli.is
Tengiliður Borgarhólsskóla er Elsa Björk Skúldadóttir elsabjork@borgarholsskoli.is
Tengiliður framhaldsskólans á Húsavík er Elín Pálmadóttir námsráðgjafi elinpalma@fsh.is
Tengiliður 16-18 ára barna sem ekki eru í framhaldsskóla er Tinna Ósk Óskarsdóttir tinna@nordurthing.is
Málstjórar:
Ef fyrir liggur beiðni foreldra og/eða barns um samþættingu þjónustu og ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi er tilnefndur málstjóri. Málstjórar eru að jafnaði starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga.
Hlutverk málstjóra er meðal annars að veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu og aðstoða við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns, bera ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar og stýra stuðningsteymi. Málstjóri hefur hagsmuni barnsins ávallt að leiðarljósi og rækir hlutverk sitt í samráði við forelda og barn. Í stuðningsteymi sitja fulltrúar þjónustuveitenda í máli barnsins. Heimilt er að bjóða þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka sæti í stuðningsteymi ef þörf krefur. Mikilvægt er að muna að foreldrar og, eftir atvikum, barn eru hluti af stuðningsteyminu, sitja fundi þess og taka þátt í gerð stuðningsáætlunar.
Stuðningsteymið skal í sameiningu gera skriflega stuðningsáætlun fyrir barnið þar sem þjónusta sem er veitt í þágu farsældar barnsins er samþætt. Stuðningsteymið hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar þann tíma sem áætlunin varir. Stuðningsáætlun ber að endurmeta og endurnýja eftir því sem þörf krefur. Stuðningsteymi getur einnig lokað máli eða vísað að nýju til tengiliðar á 1. stigi ef og þegar viðunandi árangri er náð og ekki er lengur þörf fyrir þjónustu á 2. eða 3.stigi. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.
Eyðublöð og reglur: