Söfn
Grenjaðarstaður er glæsilegur torfbær í Aðaldal. Jörðin er landnámsjörð og fornt höfuðból, kirkjustaður og prestssetur, og þar var áður starfrækt pósthús. Grenjaðarstaður þótti á sinni tíð mestur og reisulegastur allra bæja í héraðinu, enda um 775 m2 að stærð, einn stærsti torfbær landsins. Elsti hluti hans var reistur árið 1865 en búið var í bænum til 1949.
Byggðasafn N-Þingeyinga er mjög áhugavert safn sem er staðsett við Kópasker, sem er um 30 kílómetra frá Ásbyrgi, um mjög fallega sveit. Aðal sérkenni safnsins er óvenjulega fjölbreytt safn handverks, t.d. útsaumur, vefnaður, brúðarbúningar frá 19 öld, verkfæri og útskurður. Á safninu er stórt ljósmyndasafn frá bæjum og íbúum héraðsins.
Í Safnahúsinu á Húsavík er glæsileg sjóminjasýning sem sýnir þróun útgerðar í Þingeyjarsýslum. Þar er einnig nútímaleg og framsækin sýning helguð Samvinnuhreyfingunni á Íslandi sem og athyglisverð náttúrugripa- og byggðasafnssýning sem sýnir samspil manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu 1850 til 1950. Í Safnahúsinu er einnig listasalur og rými fyrir ljósmyndasýningar og aðrar styttri sýningar.
Hvalasafnið á Húsavík er fræðslustaður um hvali og lífríki sjávar. Safnið var stofnað árið 1997 og hefur verið sjálfseignarstofnun síðan árið 2004. Aðalmarkmið safnsins er að miðla fræðslu og upplýsingum um hvali og lífríki þeirra á lifandi og áhugaverðan hátt. Safnið tengir fræðslu um dýrin við hvalaskoðunarferðir á Skjálfandaflóa og styrkir upplifun ferðamanna sem heimsækja Húsavík.
Á Skjálftasetrinu á Kópaskeri er að finna sýningu sem tengist Kópaskersskjálftanum þann 13. janúar 1976 og Kröflueldum. Þar má finna myndir, myndbönd og annað efni sem sýnir afleiðingar þessa mikla skjálfta sem mun hafa verið um 6,3 stig á Richter. Einnig má þar finna upplýsingar um Kópaskersmisgengið og fleira forvitnilegt.