Jökulsá á Fjöllum
Jökulsá á Fjöllum er talin 206 km löng frá upptökum sínum í Vatnajökli þar til hún byltir sér fram, kolmórauð, út í Öxarfjöðinn. Á þessari löngu leið hefur hún skilið eftir sig tilkomumikil ummerki. Hið efra flæðir hún víða breið yfir sandmikil svæði öræfanna, en er halla tekur undan fer hún að kljást við berggrunn landsins – árfarvegurinn þrengist og straumþunginn eykst að sama skapi. Eitthvað verður undan að láta og hið harða berg brotnar og molnar, gljúfrin dýpka og flúðir og tilkomumiklir fossar verða til; Selfoss og Hafragilsfoss að ógleymdum aflmesta fossi Evrópu, Dettifossi, sem steypist um hálft hundrað metra niður í þröngt gljúfrið. Á einstaka stöðum þar sem áin hefur brotið sér leið í gegnum fornar eldstöðvar hafa nokkrir bergtappar, m.a. við Hljóðakletta, staðið af sér ógnarkrafta en bera vitni um tröllsleg átök Jöklu er hún fór þar um forðum daga.
Þröngum gljúfrum sínum fylgir áin þar til hún losnar endanlega úr viðjum þeirra er niður á láglendið kemur. Nú sem fyrr ber Jökulsá óhemjumagn af sandi. Sandsvæði myndast sem í áranna rás hefur fengið að gróa nokkuð upp en er nær dregur sjónum er sandurinn fínni og hefur ekkert afl á móti ánni ef hún kýs að breyta eitthvað um stefnu. Þess vegna hefur Jökla með kvíslum sínum sífellt verið að finna sér nýjar leiðir um sandana. Að lokum brýst hún út í Öxarfjörðinn full af jökulleir og ýmsum þeim steinefnum sem lífinu í sjónum eru mikilvæg. Þessi fíngerði salli hefur ekki fyrr borist til sjávar en hans taka til við að bylta sandkornunum og skila þeim aftur á land með strandlengju fjarðarins og úr verða gróskumikil sandsvæði sem einkenna umhverfið. Bakkahlaupið, sem nú er aðalfarvegur Jökulsár, var aðeins smáspræna fyrir rúmum 100 árum, en þá voru aðalárfarvegirnir tveir, annar rann skammt frá Keldunesi í Kelduhverfi, en hinn ekki langt frá Skógum í Öxarfirði.