Fara í efni

Gróðurfar

Gróðurfar í sveitarfélaginu er fjölbreytt enda spannar það stórt svæði. Almennt má segja að á  láglendi sé gras- og votlendi áberandi en síðan taki mólendi við. Eftir því sem ofar dregur verður mólendið rýrara og uppblásturssvæði verða áberandi.

Graslendið stafar fyrst og fremst af ræktun í tengslum við landbúnað sem er mikilvægasta atvinnugreinin í dreifbýlinu. Það er mest næst ströndinni en teygir sig inn til landsins í Öxarfirði og í Reykjahverfi. Votlendissvæði eru víða á láglendi en þau víðáttumestu eru fyrir botni Öxarfjarðar og á austurhluta Melrakkasléttu.

Einn stærsti samfelldi birkiskógur landsins er í Öxarfirði og nær frá Öxarnúpi í norðri og til suðurs með heiðarbrúninni, upp með Jökulsárgljúfrum og vestur í Kelduhverfi. Víða er skógurinn hávaxinn s.s. í þjóðgarðinum og Meiðavallaskógi. Reynir er nokkuð algengur í birkiskóginum sértaklega nálægt gljúfrunum. Nyrstu skógarleifar á Íslandi eru í Leirhafnarfjöllum.

Mólendi þekur mestan hluta sveitarfélagsins og má segja að það sé einkennisgróðurlendi þess. Einnig eru stórþýfðir lyngmóar áberandi og gerast þúfur varla stærri en í heiðum Kelduhverfis. Blásnir melar og uppblásturssvæði eru víða en mest ber á þeim hátt uppi á heiðum.

Landgræðsla hefur verið stunduð á ógrónum svæðum. Landgræðsla ríkisins hefur umsjón með 12 landgræðslusvæðum í sveitarfélaginu en það stærsta er á Hólsfjöllum í fyrrum Öxarfjarðarhreppi um 90 000 hektarar að stærð. Bændur og búnaðarfélög hafa einnig stundað uppgræðslu, oft í samstarfi við Landgræðsluna.

Alaskalúpína hefur verið nýtt til uppgræðslu í nokkrum mæli í sveitarfélaginu. Mest ber á henni í fyrrum Húsavíkurbæ.  Lúpínan hefur gagnast vel við bindingu jarðvegs en reynslan af notkun hennar hér á landi hefur hins vegar sýnt fram á að hún getur verið mjög ágeng og kaffærir viðkvæman íslenskan gróður. Þannig nemur lúpínan ný lönd þar sem hún á ekki heima. Þess utan er nokkur óánægja meðal íbúa Húsavíkur með gjörbreytta ásýnd landsins, þ.á.m. fjallsins. Tekið skal fram að skoðanir um lúpínu í landi Húsavíkur eru skiptar eins og reyndar á landinu öllu. Skipulögð skógrækt er stunduð á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu. Tvö skógræktarfélög eru í sveitarfélaginu, Skógræktarfélag Húsavíkur og Skógræktarfélag Norður-Þingeyinga. Í Norðurþingi eru þó nokkrar jarðir samningsbundnar Norðurlandsskógum sem er landshlutabundið skógræktarverkefni.

Lögð hefur verið sérstök áhersla á gróðursetningu innlendra trjá- og runnategunda nærri byggð og útivistarsvæðum. Nýskógrækt í landi Húsvíkurbæjar hefur almennt verið beint að röskuðu landi (s.s. túnum), brekkum, hæðóttu eða vangrónu landi en forðast hefur verið að taka flatlenda hrísmóa og óframræst votlendi til nýskógræktar. Þetta hefur verið gert til að forðast hugsanleg neikvæð áhrif á mófuglastofna sem byggja afkomu sína að miklu leyti á þessum vistgerðum. Ísland ber mikla alþjóðlega ábyrgð á vexti og viðgangi margra mófuglastofna þ.á.m. algengra tegunda eins og heiðlóu og spóa. Áætlað er að á Íslandi verpi um 50% af heimsstofni þessara tegunda.